Gengið á góða spá: Ingólfsfjall

26/01/2017

Spáð er góðu veðri á laugardaginn og þá verður tækifærið notað til að ganga á Ingólfsfjall undir merkjum verkefnisins Gengið á góða spá. Allir eru velkomnir.

Ingólfsfjall liggur á milli Selfoss og Hveragerðis. Hæsti toppur fjallsins heitir Inghóll og liggur í 551 metra hæð en "hóllinn" fer ekki framhjá neinum sem fer á Ingólfsfjall.

Þátttakendur hittast við hús Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, rétt fyrir brottför kl. 9 á laugardagsmorgun. Þar verður hægt að sameinast í bíla gegn þátttöku í bensínkostnaði. Ekið er sem leið liggur að upphafsstað göngunnar við Nátthaga innarlega á Hvammsvegi sem er vegur númer 374.

Frá bílum verður svo gengið meðfram Hvammsá og upp Lyngbrekkur. Alls er gönguleiðin 10-11 km og er áætlaður göngutími 4-5 klst. Gangan telst vera í léttari kantinum. Fararstjóri er Ragnar Antoniussen.

Verð í gönguna er 4.000 kr. fyrir félagsmenn Ferðafélags Íslands en 6.000 kr. fyrir utanfélagsmenn.


Skráning og greiðsla á skrifstofu FÍ eða í síma 568 2533 fyrir kl. 15 á föstudaginn 27. janúar.

ingolfsfjall.jpg
Mynd frá Ferðafélagi Árnesinga. Efri mynd af Wikimedia.
...........

Gengið á góða spá með Ferðafélagi Íslands

Göngurnar í útivistarverkefninu Gengið á góða spá eru fjölbreyttar að umfangi, bæði fjallgöngur og annars konar útivist, léttar göngur og erfiðar, langar og stuttar. Ferðirnar eru farnar þangað sem spáð er bestu veðri og mestar líkur eru á góðu gönguveðri og fjallaútsýni. Að jafnaði er farið um helgar, annað hvort laugardag eða sunnudag og eru ferðirnar auglýstar með stuttum fyrirvara þ.e. miðvikudag/fimmtudag fyrir hverja ferð.

Ferðirnar eru auglýstar bæði hér á heimasíðu Ferðafélags Íslands sem og á fésbókarsíðu. Allra best er þó að fylgjast með þessum ferðum með því að ganga í fésbókarhópinn Gengið á góða spá. Meðlimir hópsins munu þá fá allar upplýsingar um fyrirhugaðar ferðir beint inn á eigin fésbók. Innan hópsins er líka hægt að skiptast á myndum og ferðasögum, sameinast í bíla og kynnast nánar.

Ferðirnar standa öllum opnar og fólk getur mætt í eina eða allar þær ferðir sem settar verða á dagskrá, allt eftir áhuga, getu og tíma. Þó er nauðsynlegt að skrá sig á skrifstofu FÍ í síma 568 2533 eða með því að senda póst á fi (at) fi.is fyrir kl. 15, föstudaginn fyrir hverja ferð.

Athugið að þó að gengið sé þegar vel viðrar þá er enginn afsláttur gefin af fatnaði og þeim búnaði sem þátttakendur þurfa að taka með sér, því veður geta breyst afar hratt, sérstaklega til fjalla.