Harmsaga Agnesar

23/02/2017

Glæný og afar forvitnileg sögu- og fræðsluferð verður í apríl um Norðurland þar sem farið verður um heimaslóðir Agnesar Magnúsdóttur og örlagasaga hennar sögð. Þetta er sannkölluð menningarferð þar sem hinn þaulreyndi fararstjóri og leikstjóri, Sigrún Valbergsdóttir, leiðir för og varpar ljósi á örlagasögu Agnesar og Natans Ketilssonar.

Með í för verður bókin Náðarstund eftir Hannah Kent sem fjallar um Agnesi og aðdraganda þess að hún var tekin af lífi fyrir morð og brennu á Illugastöðum.

Hannah, sem er frá Ástralíu, var skiptinemi á Íslandi þegar hún fékk áhuga á sögu Agnesar. Hún aflaði sér mikilla upplýsinga um atburðina og skrifaði í framhaldinu skáldsöguna Náðarstund. Sagan hefur verið þýdd á íslensku og þýsku. Þeir sem vilja fræðast enn frekar geta einnig lesið Yfirvaldið eftir Þorgeir Þorgeirsson sem fjallar um sömu atburði.

Forsagan er sú að árið 1830 var framkvæmd síðasta aftaka á Íslandi. Þá voru hálshöggvin þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson fyrir morð og morðbrennu á Illugastöðum á Vatnsnesi tæpum tveim árum fyrr. Hinir myrtu voru Natan Ketilsson, húsbóndi á Illugastöðum, og Pétur Jónsson.

Grofin_opt.jpg

Málið er enn hitamál á þessum slóðum þótt tvær aldir séu liðnar frá því Agnes var uppi. Sýnist sitt hverjum um framvinduna. Agnes og Friðrik voru dysjuð við Þrístapa þar sem aftakan fór fram. Einni öld síðar birtist hún konu í draumi og bað um að fá að hvíla í vígðri mold. Farið var að vilja hennar og þau Friðrik jörðuð í kirkjugarði á Vatnsnesi.

Sigrún mun leiða sitt fólk um þessar örlagaslóðir og sagan mun stíga ljóslifandi fram. Fólk ferðast um á langferðabíl en heldur til í uppábúnum rúmum á Brekkulæk í Miðfirði þar sem öll aðstaða er til mikillar fyrirmyndar.

Að kveldi verða sögustundir og þáttakendur velta fyrir sér sögu hins ógæfusama fólks. Á daginn sprettur síðan sagan ljóslifandi fram þegar ekið er um sögusviðið.

Hér má lesa frekar um ferðina og bóka pláss.

Tjarnarkirkja-opt.jpg Hvitserkur-opt.jpg