Úlfarsfell 1000

09/05/2017

Í lok maí verður haldin heljarinnar útihátíð á Úlfarsfelli þar sem stefnt er að því að fá alls eittþúsund manns á fjallið. Athugið að gangan átti að vera á morgun, miðvikudag, en hefur verið frestað vegna veðurs þar sem djúp lægð gengur yfir landið og útlit er fyrir rok, rigningu eða slyddu.

Stefnt er að því að halda þessa skemmtigöngu síðustu vikuna í maí en nánari dagsetning verður auglýst þegar nær dregur.

Í þessari skemmtigöngu mun Ferðafélag Íslands heiðra þá göngufélaga sem gengið hafa mörg hundruð sinnum á Úlfarsell. Reynir Traustason sem tók upp á því að stunda fjallgöngur fyrir nokkrum árum gengur í þúsundasta skipti á Úlfarsfell í þessari gönguferð.

Boðið verður upp á tónlistaratriði á Hákinn þar sem meðal annars Stuðmenn, Valdimar og Bjartmar Guðlaugsson stíga á svið og taka lagið og Raggi Bjarna endar prógrammið með því að syngja Vorkvöld í Reyjavík.

Reykavíkurborg og FÍ innsigla samstarf um aðkomu FÍ að uppbyggingu göngustíga í Úlfarsfelli og Landhelgisgæslan kemur með neyðarsendi frá FÍ sem settur verður upp í fjallinu.

Skemmtigöngustjórar verða Tómas Guðbjartsson og Páll Guðmundsson.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Mæting er hvort tveggja við bílastæðið ofan Úlfarsárdals og við bílastæði Skógræktarinnar við Vesturlandsveg. Fararstjórn frá báðum stöðum og hóparnir sameinast á Hákinn.