Úlfarsfell alla fimmtudaga

09/04/2017

Ferðafélagið býður upp á opnar og ókeypis heilsubótargöngur á Úlfarsfell alla fimmtudaga. Gengið er á hraða sem hentar flestum og allir eru velkomnir.

Úlfarsfell er fjall í borg þar sem það rís rúma 300 metra upp á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Ganga á fjallið tekur tæpar 2 klukkustundir og alls eru þá gengnir um 4 kílómetrar.

Fararstjórar í þessum göngum eru Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson. Gleðin er ríkjandi, sungið er á hæsta tindi og þátttakendur eru kynntir fyrir æfingakerfinu Hauknum. Oft eru sérstakir gestafararstjórar með í för sem segja sögur, syngja eða fræða þátttakendur um ýmislegt sem tengist útivist, fjallgöngum, sögu svæðisins eða hvað sem er.

Áhersla er lögð á að vera í núvitundinni og hrista af sér amstur og hugarvíl og setja þess í stað inn þá gleði sem fylgir fjallamennskunni. Þetta er því sannkallað heilsuátak þar sem horft er til bæði sálar og líkama.

Göngurnar hefjast hefðbundið á bílastæðinu í Úlfarsárdal kl. 17:45 og komið er til baka í bíla um kl. 19:30. Núna á skírdag verður hins vegar lagt af stað kl. 10 um morguninn, enda er dagurinn almennur frídagur.

Ekkert kostar að taka þátt í göngunum sem eru á færi langflestra. Fólk þarf að vera í skjólgóðum klæðnaði.

Sjá kort af upphafsstað :

Ullinn.jpg