ÁVARP FORSETA FÍ í tilefni af útkomu Ferðaáætlunar FÍ 2013
Af stað!
Það er spenna og tilhlökkun í loftinu þegar hópur ferðafélaga kemur saman við upphaf ferðar hjá Ferðafélagi Íslands. Ferðafélagarnir eru vel útbúnir og hafa jafnvel lagt á sig nokkrar æfingar til þess að hafa gott líkamlegt þol. Þeir hafa valið þessa ferð umfram margt annað sem hægt hefði verið að verja tíma og fé til. En loksins er stundin runnin upp og nú safnast þetta allt saman í orðin tvö: „Af stað“. Og í þessum sporum hafa félagar í ferðum Ferðafélagsins staðið í áttatíu og fimm ár og alltaf brennur sama ferðalöngunin þó að ferðalögin og viðhorf til þeirra hafi gerbreyst.
Æ fleirum er nú ljóst hversu einstakt og sérstakt landið okkar er. Öræfi þess og torleiði sem forfeðrum okkar stóð ógn og ami af eru nú leikvangur ferðamanna. Tröllslegir hamrar og kolmórauður jökulflaumur er ekki lengur illúðin ein heldur mögnuð fegurð. Fjallaferðir sem áður töldust erindislaust flan eru nú keppikefli og heilsubót. Göngufólk með viðlegubúnað til margra daga þótti sérvitringar en er nú öfundsvert af ævintýrum sínum og dugnaði.
Félagsmenn og forystufólk Ferðafélagsins hafa verið vakandi fyrir þessum breytingum á hverjum tíma og sjást þess glögg merki í ferðaáætlunum og efnistökum árbókanna. Félagið telur það skyldu sína og metnað að vera í fararbroddi þegar straumhvörf verða og nýjungar birtast í ferðamáta landsmanna. Um leið er gætt að fjölbreytni fyrir sem flesta og vinsældum í ferðavali. Með þessu móti er félagið í fullu fjöri þó að brátt hilli undir aldarafmæli.
Gæfu sína getur félagið þakkað öllum þeim mikla fjölda sem ferðast hefur með félaginu fyrr og síðar og mótað ferðamenningu Íslendinga um eigið land.
Ferðafélag Íslands hvetur landsmenn til að njóta einstakrar fegurðar náttúrunnar og finna eitt magnaðasta augnablik hverrar ferðar: „Af stað“.
Ólafur Örn Haraldsson
Forseti Ferðafélags Íslands