Fjallaverkefni FÍ 2016. Góð heilsa í jólagjöf


Tilvalin jólagjöf fyrir þig eða maka. Hægt er að skrá sig strax á skrifstofu FÍ í síma 568 2533 og ganga frá greiðslu eftir áramót. Athugið að takmarkaður fjöldi er í hvert verkefni.

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjallaverkefnum sem öll eiga það sammerkt að vera lokuð verkefni sem ganga út á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap. Verkefnin byrja flest í upphafi árs þegar þátttakendur fá í hendurnar fyrirfram ákveðna fjalladagskrá fyrir viðkomandi verkefni.

Meginmarkmið þessara verkefna er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum. Árgjald Ferðafélags Íslands er innifalið í þátttökugjaldi.

Fyrsta skrefið - Heilsurækt á fjöllum

Ferðafélag Íslands stendur fyrir nýju verkefni sem hlotið hefur nafnið Fyrsta skrefið þar sem gengið er á fjöll einu sinni í viku. Verkefnið er hugsað fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin í fjallgöngu þar sem áhersla er lögð á að ganga rólega á létt og þægileg fjöll. Verkefnið hentar einnig öllum fjallageitum sem vilja ganga rólega og njóta útiveru og góðs félagsskapar. Verkefnið stendur frá byrjun janúar til maí.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson sem báðir tóku fyrstu skrefin í fjallgöngum fyrir nokkrum árum með Ferðafélagi Íslands og hafa síðan verið óstöðvandi. Þeim til halds og trausts verður Auður Kjartansdóttir.

Kynningarfundur: Fimmtud. 7. janúar, kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6. Verð: 56.400. Árgjald FÍ innifalið.

Alla leið

Ferðafélag Íslands býður upp á æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum.

Þátttakendur velja að ganga á eitt af þremur eftirtöldum fjöllum: Hvannadalshnúk 14. maí, Eyjafjallajökul (þveraður frá Grýtutindi að Seljavöllum) 28. maí, og Hrútsfjallstinda 11. júní. Ef illa viðrar uppgönguhelgarnar gæti farið svo að göngunum yrði frestað um viku. Athugið að í boði er að ganga á alla þrjá tindana. Hver aukatindur kostar 17.000 þúsund.

Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.

Kynningarfundur: Fimmtud. 14. janúar, kl. 19:45 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 57.400.Árgjald FÍ innifalið.

Eitt fjall á mánuði - Léttfeti

Þetta verkefni er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, rólegum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 12 fjallgöngur, yfirleitt fyrsta laugardag í hverjum mánuði út árið. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum. Meðal annars verður gengið á Hestfjall, Hafnarfjall og Ok.

Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi: 70.

Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar, kl. 20 í sal FÍ í Mörkinni 6. Verð: 62.400.Árgjald FÍ innifalið.

Eitt fjall á mánuði - Fótfrár

Þetta verkefni er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Alls verður gengið á 12 fjöll, yfirleitt þriðja laugardag í hverjum mánuði út árið. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi. Meðal annars verður gengið á Skessuhorn, Fagraskógarfjall og Snæfellsjökul.

Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi: 50.

Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar, kl. 20 í sal FÍ í Mörkinni 6. Verð: 62.400.Árgjald FÍ innifalið.

Tvö fjöll á mánuði - Þrautseigur

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á alls 24 fjöll yfir árið, yfirleitt bæði fyrsta og þriðja laugardag í hverjum mánuði. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.

Umsjónarmenn eru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Hámarksfjöldi: 30.

Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar, kl. 20 í sal FÍ í Mörkinni 6. Verð: 72.400.Árgjald FÍ innifalið.

FÍ Landvættir

FÍ Landvættir er æfingaverkefni sem stendur fram í ágúst 2016. Takmark hópsins er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna, þ.e. skíðagöngu, fjallahjólreiðum, útisundi og fjallahlaupi á næsta ári 2016.

Þetta er æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.

Verð: 86.400. Árgjald FÍ innifalið.

Sjá nánari upplýsingar hér og á skrifstofu FÍ í síma: 568 2533.