Ferðafélag Íslands hefur stofnað æfingahópinn FÍ Landvætti og fyrst um sinn eru æfingarnar opnar öllum til að koma og prufa en hópurinn æfir saman einu sinni í viku.
Næstu æfingar:
Laugard. 12. des. kl. 10 í Bláfjöllum. Grunnnámskeið í skíðagöngu.
Fimmtud. 17. des. kl. 18 í Bláfjöllum. Skíðaganga og súpa.
Sunnud. 27. des. kl. 10 við Laugardalslaug. Hjólað og synt.
Fimmtud. 31. des. kl. 12 við Hörpuna. ÍR hlaupið.
Hvað er FÍ Landvættir?
FÍ Landvættir er æfingaverkefni sem stendur fram í ágúst á næsta ári með það takmark að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna innan ársins 2016. Landvættaþrautirnar fjórar eru eftirfarandi:
Fossavatnsgangan: 50 km skíðaganga. 30. apríl
Bláalónsþrautin: 60 km fjallahjól. 11. júní
Urriðavatnssundið: 2,5 km útisund. 23. júlí
Jökulsárhlaupið: 33 km fjallahlaup. 6. ágúst
FÍ Landvættir verður lokaður hópur sem æfir saman með hópstjórunum, Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall, á einni stórri æfingu í hverri viku, oftast annað hvort á laugardegi eða fimmtudegi. Þess á milli æfir hópurinn eftir fyrirfram ákveðinni æfingaáætlum, saman eða bara þegar það hentar hverjum og einum.
Þátttakendur í FÍ Landvættum fá mikið aðhald, verða tímamældir og taka örnámskeið með fremstu sérfræðingum landsins í hverri þraut fyrir sig. Þar gefast kjörin tækifæri til að fara nánar í tæknileg atriði, líkamsbeitingu og útbúnað. Þá verður boðið upp á sérstakt námskeið um næringu í kringum æfingar og þrautir sem þessar. Að auki mun hópurinn fjórum sinnum taka heilar æfingahelgar, fjarri höfuðborgarsvæðinu, þar sem sjónum verður beint að einni eða tveimur þrautum á tveimur dögum.
Þátttakendum bjóðast einnig afsláttarkjör á lengri aukanámskeiðum ef þeir þurfa á því að halda, t.d. skriðsundsnámskeiði og gönguskíðanámskeiði og þá verður boðið upp á kynningar og afsláttarkjör á útbúnaði.
Fyrir hverja?
FÍ Landvættir er fyrir fólk sem vill stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap. Verkefnið er hugsað fyrir venjulegt fólk sem nú þegar er í sæmilegu formi og hreyfir sig meira eða minna reglulega. Verkefnið hentar illa fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref upp úr sófanum en er samt ekki afreksverkefni á par við járnkarlaþrautirnar.
Til að fólk átti sig á tímamörkum hverrar þrautar fyrir sig þá er lágmarkið nokkurn veginn að fólk geti að minnsta kosti skíðað og hlaupið 10 km á undir 11/2 klst, hjólað 10 km á undir 40 mínútum og synt 1 km á undir 50 mínútum.
Sjá nánar um Landvættinn.
Þátttaka í æfingahópnum FÍ Landvættir kostar 79 þúsund krónur fyrir félaga í Ferðafélagi Íslands. Hægt er að dreifa greiðslunni á fimm mánuði.
Spurningar? Hafðu samband við Brynhildi í síma 6920029 eða í gegnum netfangið: brynolafs@gmail.com.