Miklar lagfæringar hafa verið gerðar á gönguleiðinni um Laugaveginn í sumar og áætlanir eru uppi um enn frekari umbætur á næsta ári.
Skógrækt ríkisins hefur í nokkur ár staðið að viðhaldi á göngustígum inni í Þórsmörk undir styrkri stjórn Charles J. Goemans (Chas) sem hefur farið fyrir hópum sjálfboðaliða á svæðinu. Í ár gerði Ferðafélag Íslands svo samning við Skógræktina um að færa út kvíarnar og sinna viðhaldi og umbótum á Laugaveginum sjálfum.
Aðsetur sjálfboðaliða í Þórsmörk Charles J. Goemans, Chas, leiðtogi sjálfboðalia
Samstarfið gekk út á að Chas þjálfaði sjálfboðaliðahópa í Þórsmörk áður en hóparnir fluttu sig um set og komu sér fyrir í vikutíma í senn í skálum FÍ, annað hvort í Emstrum eða í Hvanngili. Þaðan unnu hóparnir svo að viðgerðum á stígum Laugavegarins.
Alls voru sjálfboðaliðar að störfum í fjórar vikur í sumar og gekk starfið afar vel. Veður og snjóalög settu þó strik í reikninginn og ekki var hægt að vinna eins mikið og vonir stóðu til í þeim hluta Laugavegarins sem mest þarf á viðgerð að halda, þ.e. frá Jökultungunum og niður í Hvanngil. Stefnt er að því að halda þessu verkefni áfram næsta sumar og þá í að minnsta kosti sex vikur.
Nú undir lok september var svo haldið námskeið í Þórsmörk í stígagerð. Skógrækt ríkisins, Umhverfisstofnun og Landgræðsla ríkisins stóðu að námskeiðinu en gisting og aðstaða voru í boði Útivistar og Ferðafélags Íslands.
Fimmtán manns tóku þátt í námskeiðinu sem stóð í tvo daga og fólst í fyrirlestrum og vettvangsferðum. Meðal annars fræddust þátttakendur um hönnun göngustíga, stjórnun vatnsrennslis, efnisval í mismunandi undirlendi og vinnuskipulag.
Stefnt er að því á næstunni að stofna samtök þeirra aðila sem vinna að lagningu og viðhaldi gönguleiða. Með slíkum samtökum er hægt að byggja upp tengslanet og miðla þekkingu manna á milli.