Nýtt samstarfsverkefni FÍ og Krabbameinsfélagsins

 Frá vinstri:Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ, Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Ólöf Krístín Sívertsen forseti FÍ skrifa undir samstarfssamning FÍ og Krabbameinsfélagsins.  Auk þeirra eru á myndinni Steinar Aðalbjörnsson verkefnisstjóri hjá Krabbameinsféaginu, fararstjórarnir Páll Ásgeir og Rósa og Sigrún Elva Einarsdóttir verkefnisstjóri hjá Krabbameinsfélaginu.
Frá vinstri:Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ, Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Ólöf Krístín Sívertsen forseti FÍ skrifa undir samstarfssamning FÍ og Krabbameinsfélagsins. Auk þeirra eru á myndinni Steinar Aðalbjörnsson verkefnisstjóri hjá Krabbameinsféaginu, fararstjórarnir Páll Ásgeir og Rósa og Sigrún Elva Einarsdóttir verkefnisstjóri hjá Krabbameinsfélaginu.

Samstarf Ferðafélags Íslands og Krabbameinsfélagsins

Fræðandi göngunámskeið fyrir fólk sem fengið hefur krabbamein og aðstandendur.

Ferðafélag Íslands og Krabbameinsfélagið hafa tekið höndum saman um nýtt sameiginlegt göngunámskeið, þar sem boðið er upp á vikulegar gönguferðir og fræðslu fyrir þá sem hafa fengið krabbamein og aðstandendur þeirra.

Heilnæm útivist í formi gönguferða auk áhugaverðrar fræðslu getur stuðlað að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess. Einnig er félagsskapur við aðra sem eiga svipaða reynslu að baki mjög jákvæður, áhrif jafningjastuðnings eru vel þekkt.

Margir sem greinst hafa með krabbamein og gengið í gegnum krabbameinsmeðferð glíma við langtímaafleiðingar sem geta verið líkamlegar, andlegar, félagslegar og fjárhagslegar og geta haft mikil áhrif á lífsgæði fólks. Meðal helstu markmiða Krabbameinsfélagsins er að bæta lífsgæði fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra. Ferðafélag Íslands hefur alla tíð unnið að því að auðvelda og hvetja til útivistar og ferðalaga um landið auk þess að fræða um náttúru og sögu.

,, Við erum mjög ánægð að geta boðið upp á þetta samstarf með Krabbameinsfélginu. Heilnæm útivist í formi gönguferða auk áhugaverðrar fræðslu getur stuðlað að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess. Einnig er félagsskapur við aðra sem eiga svipaða reynslu að baki mjög jákvæður, áhrif jafningjastuðnings eru vel þekkt,” segir Ólöf Kristín Sívertsen forseti Ferðafélags Íslands.

„Við erum mjög ánægð með að geta boðið upp á þessa nýjung,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson, sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. „Hreyfing er einn þeirra þátta sem leika mikilvægt hlutverk í forvörnum gegn krabbameinum. Hreyfing er ekkert síður mikilvæg þegar fólk hefur greinst með krabbamein eða er að ná heilsu og kröftum á ný eftir krabbameinsmeðferð. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing eykur ekki bara líkamlega heilsu heldur ekkert síður andlega heilsu og munar um minna þegar glímt er við krabbamein eða eftirstöðvar þess.“

Námskeiðið stendur frá 20. janúar til 15. júní. Farið verður í 21 gönguferð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Almennt ættu göngurnar að henta flestum. Framan af er gengið á sléttu landi án hækkunar en þegar líður á árið verður gengið á lág fjöll auk þess sem göngurnar lengjast nokkuð.

Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir fararstjórar hjá Ferðafélagi Íslands eru fararstjórar í gönguferðunum og hafa sett upp göngudagskránna.

,,Það sem okkur finnst mikilvægt í þessu verkefni er að fá fólk út að ganga með okkur. Það er margsannað og rannsóknir sýna að áhrif þess að vera úti í náttúrunni eru mjög til  góðs og hefur svo margvísleg jákvæð áhrif fyrir líkama og sál, lækningamáttur útivistar er mikill, ” segir Páll Ásgeir og minnir um leið á þann mikla félagslega stuðning sem fæst með því að taka þátt í gönguhópum FÍ. ,, Í fyrsta lagi eiga gönguferðirnar í þessu verkefni að vera þægilegar og aðgengilegar og svo á að vera gaman þar sem allir fá að njóta sín á þeirra forsendum. Þess vegna viljum við fara hægt og rólega og tryggja ánægjulega upplifun þátttakenda,”

„Ávinningurinn af útivist er ótvíræður,“ segir Rósa Sigrún Jónsdóttir, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. „Það hafa allir gott af því að hreyfa sig, læra að vera úti, klæða sig eftir veðri og fræðast um sögu og náttúrufar. Það er þó ekki síst þessi sigurtilfinning sem fylgir því að ná markmiðum sínum sem er valdeflandi fyrir fólk. Að standa á einhverjum toppi sem maður hefur einsett sér að ná, algjörlega burtséð frá því hversu hár hann er.“

Fyrstu þrjú skiptin eru án endurgjalds svo fólk geti komið til að prófa hvort göngurnar henti þeim. Eftir það er þátttökugjald 5000 kr. (samanlagt fyrir allar göngurnar þaðan í frá, 18 alls).

Dagskrá:

Athugið að nokkuð breytilegt er á hvaða vikudögum og hvenær dagsins göngurnar eru.
Dagskráin er sett fram með fyrirvara um breytingar sem geta stafað af ýmsum ástæðum. Þar er veðrið efst á lista því mennirnir ákveða en móðir náttúra ræður.

  • 20. janúar, laugardagur, kl. 10:00. Gengið um Elliðaárdal frá Toppstöð í u.þ.b. 2 klst. Vegalengd u.þ.b. 2 km, engin hækkun. Saga Elliðaárdals, fornminjar, aftökustaðir og hellar útilegumanna.
  • 27. janúar, laugardagur kl. 10:00. Gengið um Hólmsheiði frá Olís á Norðlingaholti í u.þ.b. 2.klst. Vegalengd 2-3 km, hækkun óveruleg. Afkimarnir í heiðinni, Fjárborg, og saga sauðfjárræktar í borginni.
  • 3. febrúar, laugardagur, kl. 10:00. Gengið um Heiðmörk frá Elliðavatni í 2 klst. Vegalengd 2-3 km, óveruleg hækkun. Saga Heiðmerkur, sögur af Jóhannesi Kolbeinssyni og fleira.
  • 10. febrúar, laugardagur, kl. 10:00. Gengið um Hólmsheiði frá Gunnarshólma. U.þ.b. 2 klst. Vegalengd 2-3 km óveruleg hækkun. Elliðakot og beðasléttur í túninu þar.
  • 17. febrúar, laugardagur, kl. 10:00. Gengið um Lækjarbotna frá Waldorf skólanum. U.þ.b. 2 klst. Vegalengd 2-3 km, engin hækkun. Hellir útilegumanna heimsóttur og sagan af Eyvindi og Margréti rakin. Farið að Tröllabörnum í bakaleiðinni.
  • 24. febrúar, laugardagur, kl. 10:00. Gengið frá Hafravatni að Óskoti og Langavatni í u.þ.b. 2 klst. Vegalengd 2-3 km, engin hækkun. Saga þeirra sem bjuggu í Óskoti og undarleg saga kirkjunnar á Langavatni.
  • 2. mars, laugardagur, kl. 10:00. Gengið á Helgafell í Mosfellssveit og yfir í Skammadal. U.þ.b. 2,5 klst. Vegalengd 4.5 km. Saga Skammadals og sögur af Sigurjóni á Álafossi.
  • 5. mars, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið um Öskjuhlíð u.b.þ. 1,5 klst. Vegalengd 1,5-2 km. 50 m hækkun. Hersetuminjar og hafnargerð í Reykjavík.
  • 16. mars, laugardagur, kl. 10:00. Helgadalur og Valaból við Hafnarfjörð. U.þ.b. 3 klst. 6 km engin hækkun. Farfuglahreyfingin og öll sú saga rakin.
  • 19. mars, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið á Úlfarsfell frá Úlfarsárdal. U.þ.b. 2 klst. Vegalengd 4 km og 200 m hækkun.
  • 6. apríl, laugardagur, kl. 10:00. Gengið frá hesthúsum við Kaldárselsveg að Læknum fram í Hvatshelli og Selhelli við Setbergshlíð og til baka aftur. Sögur af hellinum og saga vatns og rafmagns í Hafnarfirði. U.þ.b. 7 km engin hækkun.
  • 9. apríl, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið úr Nauthólsvík umhverfis flugvöllinn meðfram sjó og saga hans rifjuð upp. U.þ.b. 2 klst. Vegalengd 3 km, engin hækkun.
  • 20. apríl, laugardagur, kl. 10:00. Gengið á Selfjall úr Lækjarbotnum. U.þ.b. 2.5 klst. 4 km og 150 m hækkun. Dularfullar vörður á Sandfelli skoðaðar.
  • 25. apríl, sumardagurinn fyrsti, fimmtudagur, kl. 10:00. Gengið frá Gljúfrasteini að Helgufossi í fótspor Laxness og lesið úr verkum skáldsins. 5 km, engin hækkun.
  • 4. maí, laugardagur, kl. 10:00. Fjallið eina og Húshellir u.þ.b. 2,5 klst. 4,5 km og 100 m hækkun. Hvað er þessi hellir eiginlega? Lagið um fjallið eina rifjað upp og sungið.
  • 7. maí, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið frá Reykjum í Mosfellsdal inn í Helgadal og til baka út að Mosfelli og farið í kirkjugarðinn. Leitað að silfri Egils á ýmsum stöðum. U.þ.b. 3 km, engin hækkun.
  • 14. maí, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið frá Hafravatnsrétt áleiðis fram í Þormóðsdal og niður með ánni og aftur að Hafravatni. U.þ.b. 2 klst. Vegalengd 3 km óveruleg hækkun. Saga sauðfjárræktar í Reykjavík. Bændur gegn borg.
  • 28. maí, þriðjudagur, kl. 18:00. Gengið inn með Úlfarsfelli frá skógræktinni. Vegalengd U.þ.b. 4 km lítil hækkun.
  • 1. júní, laugardagur, kl. 10:00. Gengið frá Esjustofu fram Kollafjörð og eitthvað áleiðis upp í fjallið eftir skógarstígum. Vegalengd u.þ.b. 5 km og 100 m hækkun. U.þ.b. 2,5 klst. Ýmsar sögur úr Kollafirði og Ystu-Nöf.
  • 4. júní, þriðjudagur, kl. 18:00. Kvöldganga út í Geldinganes að hlusta á æðarkollur og fleiri fugla. U.þ.b. 3 klst. Vegalengd 5 km, engin hækkun.
  • 15. júní, laugardagur, kl. 10:00. Gengið upp á Mosfell frá Mosfellskirkju og niður fyrir ofan Hrísbrú. U.þ.b. 3 klst. Vegalengd 5 km og 200 metra hækkun. Sagan af brauðinu dýra lesin og rifjuð upp.