Skáli: Álftavatn

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Suðurland

Álftavatn

Skálarnir við Álftavatn standa við Laugaveginn, eina vinsælustu gönguleið landsins. Þeir sem ganga Laugaveginn frá Landmannalaugum ganga stundum alla leið í Álftavatn og gista þar fyrstu nóttina á meðan aðrir kjósa að vera fyrstu nóttina í Hrafntinnuskeri og gista aðra nótt í Álftavatni eða Hvanngili.

Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.

AÐSTAÐA

Við Álftavatn standa tvö sæluhús sem geta hýst samtals 72 ferðalanga. Stærra húsið er á tveimur hæðum og hýsir 40. Niðri er forstofa, opið eldhús og matsalur og fjögur herbergi. Uppi eru tveir svefnsalir með rúmbálkum. Minna húsið skiptist í eldhús og svefnsal með borðum og stólum. Þar geta 32 sofið. Í báðum skálum er góð eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu rennandi vatni. Kolagrill eru úti á palli.

Gistiskálarnir tveir eru samtengdir með trépalli sem liggur líka að salernishúsinu. Salernishúsið er sameiginlegt fyrir allt svæðið, þ.e. fyrir gistiskálana og tjaldsvæðið og þar eru sturtur sem hægt er að kaupa aðgang að hjá skálavörðum. Lítið skálavarðahús er líka á svæðinu. Tjaldsvæðið er stórt. Vetrarkamar er skammt frá salernishúsinu.
Myndir frá Álftavatni.

Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 700 fyrir einstakling eða kr. 1.100 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.

Fyrsta gönguhúsið við Álftavatn var reist árið 1979 og var upphaflega hugsað til að þjónusta göngumenn á Laugaveginum.

OPNUN OG AÐGENGI

Að sumri til er hægt að aka á jeppum að skálunum eftir Fjallabaksleið syðri (F210) sem liggur frá Keldum á Rangárvöllum, norður fyrir Mýrdalsjökul og til byggða í Skaftártungu. Athugið að sérstaka aðgát þarf að viðhafa þegar ekið er yfir Kaldaklofskvísl sem er óbrúuð og grýtt.

Opnun skálanna yfir sumartímann helst í hendur við opnun Vegagerðarinnar á Fjallabaksleið og fer eftir snjóalögum og ástandi vegarins. Í meðalári má ganga út frá því að skálarnir séu opnir frá 25. júní til 17. september.

Skálarnir eru læstir yfir vetrartímann en hægt er að leigja þá og nálgast lykla með því að senda fyrirspurn á skrifstofu FÍ. Athugið að það er aðeins á færi reynslumikils ferðafólks að ferðast um þessar slóðir að vetri til og ef ætlunin er að ganga þá þarf til þess 5 árstíða útbúnað.

NÆSTA NÁGRENNI

Auk Laugavegarins þá eru fjölbreyttar gönguleiðir í nágrenni skálans, svo sem í Álftaskarð, Brattháls og að Torfahlaupi.

Vatnið sjálft er djúpt og fallegt. Það dregur nafn sitt af því að álftir voru veiddar þar á árum áður. Veiðar voru aflagðar eftir að bóndinn í Fljótsdal drukknaði við veiðar árið 1838 en unglingsdóttir hans varð vitni að slysinu.

Það er hægt að aka á jeppum eftir slóða sem liggur í vatnsborðinu undir Torfatindi og endar við þrönga gilið Torfahlaup.

Upplýsingar

  • GPS staðsetning: N 63°51.470 - W 19°13.640
  • Símanúmer: 499 0721
  • Hæð yfir sjávarmáli: 550m
  • Næsti skáli: Hrafntinnusker og Hvanngil
  • Aðgengi: Á jeppum
  • Farsímasamband: Já
  • Skálavörður: Á sumrin

Aðstaða í/við skála

Laugavegur

Hálendið Vegalengd: 54 km Göngutími 4-5 dagar
Skoða