Tour: Fáséðir staðir á Fjallabaki

Are you a member of FÍ Yes No
Hálendið

Fáséðir staðir á Fjallabaki

Description

Krefjandi gönguferð með trússi og skálagistingu um sjaldséða staði og fáfarnar slóðir.

Departure/Attendance
Brottför: Kl. 8 með rútu frá Reykjavík
Tour Guides

Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Included
Rúta, gisting, trúss, farastjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Route Description

1.d., fimmtud. Rúta ekur hópnum úr Reykjavík Kl. 8 að Klukkugilsfit á Dómadalsleið. Þar hittum við trússbíl, setjum farangur um borð og göngum svo af stað stikaða leið upp með Klukkugili, að Háöldu og þaðan í Hrafntinnusker. Gist í Höskuldsskála. Fáfarnar slóðir og ný sýn á umhverfi Laugavegarins. Ganga: 15 km. Hækkun: 400 m.

2.d. Gengið úr Höskuldsskála yfir Hrafntinnusker að íshellunum“ svokölluðu. Þaðan um hverasvæði og krókaleiðir að hinum undurfögru en fáséðu Ljósárfossum efri. Svo niður í gil Ljósár en vaða þarf eftir því nokkurn spöl til að komast upp úr hinum megin. Þaðan um Ljósártungur að neðri fossum Ljósár og svo niður gegnum Grashaga að skála í Álftavatni. Ævintýraleiðangur um fáfarnar slóðir þar sem litadýrð líparítsins nær hámarki á þessum slóðum. Gist í skála FÍ við Álftavatni. Ganga: 15 km. Hækkun: um 300 m.

3.d. Gengið frá skála við Álftavatn meðfram vatninu að hinu fagra Torfahlaupi í Markarfljóti. Þaðan eftir fáförnum slóðum meðfram fljótinu og yfir það á göngubrú við svonefndan Krók. Svo er gengið áfram meðfram ánni Hvítmögu um Reiðskarð í Hungurfit þar sem gist er. Ganga: 19 km. Hækkun: um 200 m.

4.d. Yfirgefum Hungurfit og göngum upp á Tindfjallajökli að hinum eldrauða gíg Sindra. Þaðan eftir Ásgrindum niður á Tindfjallajökul og yfir í Búraskarð. Á þessum hluta leiðarinnar þarf jöklabrodda og belti því þátttakendur munu ganga í línu yfir jökulinn. Þessi búnaður verður í trússinu þar til þennan dag.
Leiðin liggur svo niður að skála Ísalp efst í Tindfjöllum og þaðan niður að Fljótsdal innsta bæ í Fljótshlíð þar sem rúta bíður hópinn og flytur til Reykjavíkur. Ganga: 20 km. Hækkun: 700 m.

Fleiri ferðir um Laugaveginn og Fjallabak sumarið 2025