Tour: Laugavegurinn

Are you a member of FÍ Yes No
Hálendið

Laugavegurinn

Description

Vinsælasta gönguleið landsins, sem er ekki bara gönguferð heldur líka mögnuð upplifun fyrir líkama og sál. Fjölbreytt landslag, m.a. háhitasvæði, litskrúðug líparítsvæði, svartir sandar, grænir skógar og ár, bæði brúaðar og óbrúaðar.  

Departure/Attendance
Kl. 8:30 með rútu frá Reykjavík
Tour Guides

Eva Rán Reynisdóttir

Included
Rúta, gisting, trúss og fararstjórn. 

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Information

            

                                                             

Um Laugaveginn.

Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er einhver allra vinsælasta gönguleið landsins og hefur að auki komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi.

Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.

Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði félagið byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og voru frumkvöðlar innan félagsins áhugasamir um að tengja þau svæði með gönguleið um hina stórbrotnu náttúru sem er á leiðinni.

Allar götur síðan hefur félagið unnið að uppbyggingu á gönguleiðinni og þeim skálasvæðum sem eru á leiðinni. Meðal annars hefur verið stikað, merkt, sett upp upplýsingaskilti og merkingar, settar upp göngubrýr, neyðarljós, unnið í fjarskiptamálum, gefnar út leiðarlýsingar, gönguleiðabækur og kort, sáð í svæði, gróðursett og þökulagt.

Skálasvæði félagsins á Laugaveginum eru nú sex talsins: Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Botnar á Emstrum, Langidalur og Húsadalur í Þórsmörk.

Auk þess að gefa sér góðan tíma í gönguna sjálfa þá er mælt með því að göngufólk noti tækifærið og eigi einhvern tíma í Langadal í Þórsmörk í lok göngunnar. Þar er yndislegt að dvelja og hægt að finna margar fallegar gönguleiðir í nágrenninu, bæði lengri og styttri. Skálaverðir veita nánari upplýsingar.

Nánari upplýsingar um Laugaveginn og lýsingu á hverjum göngudegi fyrir sig má finna með því að smella hér

Eftirfarandi árbækur fjalla um svæðið og þær er hægt að kaupa í vefverslun.

Route Description

1.d., miðvikud. Ekið í Landmannalaugar. Þaðan er gengið undir Brennisteinsöldu um Laugahraun og Stórahver í Hrafntinnusker þar sem verður gist. Ganga: 12 km. Hækkun: 400 m.

2.d. Gengið um litrík gil með hverum og jarðhitavirkni suður úr öskju Torfajökuls og svo niður Jökultungur með slæðufossum í Álftavatn. Ganga:12 km. Lækkun: um 350 m. 

3.d. Gengið úr Álftavatni um Hvanngil. Bratthálskvísl og Bláfjallakvísl vaðnar og arkað yfir sanda undir Hattafelli, Tudda og Tvíböku á leið í skálana í Botnum í Emstrum. Hið stórbrotna Markarfljótsgljúfur skoðað í síðdegisgöngu. Ganga:16 km og lítil hækkun. 

4.d. Þrammað áfram um Fauskatorfur, Almenninga og Kápu uns Þröngá er vaðin. Þaðan um ilmandi birkiskóga Þórsmerkur í Skagfjörðsskála í Langadal. Ganga:16 km og uppsöfnuð hækkun 200 m.

5.d. Rólegur morgun, frágangur í skála áður en haldið er af stað til Reykjavíkur rétt fyrir hádegi.

Fleiri ferðir um Laugaveginn og Fjallabak sumarið 2025