Hundrað hæstu er spennandi áskorun fyrir fjallafólk sem felst í því að ganga á alla hundrað hæstu tinda Íslands og tindasöfnunin fæst staðfest, skráð og viðurkennd.
Verkefninu var hleypt af stokkunum á 90 ára afmælisári Ferðafélags Íslands og FÍ býður fólki að koma með sér í einstakt ferðalag sem lýkur með því að lokið verður við að ganga á alla hæstu tinda landsins sama ár og FÍ verður hundrað ára eða árið 2027.
Allar ferðir á dagskrá FÍ þar sem gengið er á tinda sem ná inn á hundrað hæstu listann, fá nú sérstakan stimpil: Hundrað hæstu. Hér má sjá allar ferðir FÍ þar sem gengið er á einhverja af hundrað hæstu tindum landsins.
Þátttaka í verkefninu er öllum opin og ekki er skilyrði að vera félagi í Ferðafélagi Íslands. Fólk getur að sjálfsögðu klárað söfnunina á eigin vegum og tekið í það skemmri eða lengri tíma en tímaramminn sem FÍ gefur sér er til 2027.
Þeir sem ætla að safna þessum hundrað hæstu tindum þurfa að fylgja ofangreindum reglum og skila skrásetningunni inn til fimm manna stjórnar sem stýrir verkefninu.
Hér má nálgast skráningarskjal til útprentunar.
Hægt er að skila inn upplýsingum um tinda sem fólk hefur þegar gengið á.
Verkefnisstjórn Hundrað hæstu er skipuð fólki sem þegar hefur klárað verkefnið, fulltrúa Landsbjargar og Safetravel og fulltrúa frá Ferðafélagi Íslands.
Verkefnisstjórnin fer yfir tindasöfnun þátttakenda og metur hvenær þeir hafa lokið því. Hver sá sem klárar verkefnið fær viðurkenningu og heiðursnafnbótina: Hundraðshöfðingi.
Verkefnið er hugsað sem gönguverkefni en ekki klifurverkefni. Nokkrir tindar á listanum yfir hundrað hæstu tinda landsins eru þannig að mjög erfitt og hættulegt er að komast síðustu metrana á toppinn. Verkefnisstjórnin getur sett reglur um að tindunum teljist náð, þegar komið er að þessum erfiðu köflum.
Í þessu verkefni teljast þeir tindar sem ná að minnsta kosti 50 metra trónun yfir umhverfi sitt og það var meira mál en ætla mætti að finna út úr því hvaða tindar teljast til þeirra hundrað hæstu. Til að ákvarða hvaða tindar ná þessum mörkum þurfti að mæla, ekki bara tindana sjálfa, heldur nálæga tinda og toppa og allt umhverfið.
Sá sem fyrstur kláraði þetta verkefni var Þorvaldur Víðir Þórsson (Olli) sem árið 2007 gekk á alls 163 tinda til að finna út úr því hverjir þeirra næðu inn á listann yfir hundrað hæstu. Næstu tveir, Kristján Þórhallur Halldórsson og Magnús Ingi Óskarsson, kláruðu verkefnið árið 2014.
Þessir þrír félagar, Þorvaldur, Kristján og Magnús, sem allir hafa lagt á sig ómælda vinnu við að ganga á og mæla þessa tinda, vinna nú að bók um verkefnið sem áætlað er að komi út á næstunni. Þar verður að finna leiðarlýsingar þar sem fólki verður leiðbeint um hvernig best er að bera sig að við þetta verkefni og að auki reynslusögur og margs konar fróðleik.
Einnig er unnið að sérstakri vefsíðu þar sem þeir sem ætla að klára þessa spennandi áskorun geta skráð tindana sína og borið sig saman við aðra, skipst á ráðum, leiðarlýsingum og myndum.
Þangað til að vefsíðan verður opnuð býðst fólki að halda utan um og skrá tindana sína í lítinn bækling sem nálgast má á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Meirihluti þeirra tinda sem eru á listanum yfir hundrað hæstu tinda landsins eru á jökli. Það þýðir að eftir því sem jöklar bráðna og breytast þá geta þessir tindar hækkað eða lækkað. Listinn er því lifandi og verður aldrei alveg endanlegur. Þetta er líka ástæða þess að á listanum eru alls 103 tindar sem hægt er að ganga á í samtals 34 ferðum.
Hér má nálgast Excelskjal sem inniheldur listann yfir hundrað hæstu tinda landsins. Skjalið er með tveimur flipum, annars vegar er flokkað eftir hæstu tindunum og hins vegar eftir þeim ferðum sem takast þarf á hendur til að ganga á þessa hæstu tinda.
Góða skemmtun!