Greinar undir fyrirsögninni Á slóðum Ferðafélags Íslands hóf göngu sína í Morgunblaðinu árið 1967. Um er að ræða lýsingar á gönguleiðum um allt land sem tengdust ferðum Ferðafélags Íslands. Fjölmargir félagar í Ferðafélaginu skrifuðu þessar greinar. Tómas Einarsson er einn þeirra en hann var í áratugi fararstjóri í ferðum Ferðafélags Íslands og annarra félagasamtaka í lengri og skemmri ferðum. Hann ritaði bæði greinar og bækur og ýmiskonar efni sem varðaði sögu, landshætti og mannlíf fyrri tíma. Tómas sat í stjórn Ferðafélagsins í tólf ár og gegndi starfi framkvæmdastjóra á annað ár. Þá sat hann í nefndum á vegum félagsins, m.a. lengi í ferðanefnd. Tómas Einarsson lést 12. febrúar 2006 og var það ósk hans að greinar hans mættu vera öllum aðgengilegar á heimasíðu Ferðafélagsins. Hér verðum við að ósk hans. Njótið vel.