Fararstjóri
Ólína er upp alin í Hlíðunum í Reykjavík en er sterklega tengd Vestfjörðum þaðan sem hún er ættuð, þar sem hún var í sveit á sumrin sem barn og þangað sem hún flutti með foreldrum sínum 14 ára gömul. Hún bjó á Ísafirði í 16 ár.
Ólína lærði íslensku, þjóðfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan doktorsprófi árið 2000. Hún tók einnig stjórnunarnám og er með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.
Ólína er virkur björgunarveitarmaður á útkallslista með leitarhundinn Skutul og hefur tekið björgunarnámskeið með áherslu á leit, rötun, fjallamennsku og snjóflóðabjörgun. Útivist á borð við gönguferðir, skíði og hestamennsku hefur Ólína ástundað frá unga aldri. Mörg undanfarin ár hefur hún farið fyrir hópi göngufélaga á Hornstrandir og í Jökulfirði.
Ólína er höfundur Árbókar FÍ 2017: Við Djúpið blátt. Ísafjarðardjúp. Hún er félagi í Kvæðamannafélaginu Iðunni og kann bæði að smíða og kveða vísur.
Á láglendi hefur Ólína fengist við fjölmiðlastörf, skólastjórnun, kennslu og rannsóknir auk þátttöku í stjórnmálum. Um þessar mundir leggur hún stundir á fræðastörf milli þess sem hún þjálfar hundinn og nýtur útivistar.
Súkkulaðirúsínupokinn og sjúkrakassinn.
Hornstrandir.