Ferð: Fjölskylduganga um Laugaveginn

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Hálendið

Fjölskylduganga um Laugaveginn

Ferðafélag barnanna
Lýsing

Fjölskyldunni gefst hér tækifæri til að ganga saman þessa vinsælustu leið landsins, í ferð sem er skipulögð með börn og unglinga í huga. Áhersla er lögð á að fara ekki of hratt yfir, skemmtilegar samverustundir á kvöldin og leyfa börnum og foreldrum að njóta samvista án rafrænna truflana. Glens og gaman í bland við fræðslu er aðalsmerki ferðarinnar. Umfram allt eru börnin í fyrirrúmi, þau fá að njóta sín og öll fræðsla er á máli sem þau skilja. Farangur og matur er trússaður á milli skála. 

Þessi ferðir er hugsuð fyrir fjölskyldur með börn á aldrinum 7 - 17 ára.

Brottför/Mæting
Kl. 8 með rútu frá Reykjavík
Fararstjórn

Selma S. Malmquist og Logi Geir Harðarson

Innifalið
Rúta, gisting, trúss og fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Fróðleikur

 

   

                                                                 

Um Laugaveginn.

Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er einhver allra vinsælasta gönguleið landsins og hefur að auki komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi.

Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.

Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði félagið byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og voru frumkvöðlar innan félagsins áhugasamir um að tengja þau svæði með gönguleið um hina stórbrotnu náttúru sem er á leiðinni.

Allar götur síðan hefur félagið unnið að uppbyggingu á gönguleiðinni og þeim skálasvæðum sem eru á leiðinni. Meðal annars hefur verið stikað, merkt, sett upp upplýsingaskilti og merkingar, settar upp göngubrýr, neyðarljós, unnið í fjarskiptamálum, gefnar út leiðarlýsingar, gönguleiðabækur og kort, sáð í svæði, gróðursett og þökulagt.

Skálasvæði félagsins á Laugaveginum eru nú sex talsins: Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Botnar á Emstrum, Langidalur og Húsadalur í Þórsmörk.

Auk þess að gefa sér góðan tíma í gönguna sjálfa þá er mælt með því að göngufólk noti tækifærið og eigi einhvern tíma í Langadal í Þórsmörk í lok göngunnar. Þar er yndislegt að dvelja og hægt að finna margar fallegar gönguleiðir í nágrenninu, bæði lengri og styttri. Skálaverðir veita nánari upplýsingar.

Nánari upplýsingar um Laugaveginn og lýsingu á hverjum göngudegi fyrir sig má finna með því að smella hér

Ferðalýsing

1.d., miðvikud. Gengið frá Landmannalaugum í skálann í Hrafntinnuskeri. Ganga: 11 –12 km. Uppsöfnuð hækkun: 560m. Göngutími: 5 – 6 klst. 

2.d. Gengið um Kaldaklofsfjöll og gist í Álftavatni. Ganga: 12-13 km. Lækkun: 650 m. Göngutími: 6-7 klst. 

3.d. Haldið yfir ár og sanda í skálann á Emstrum. Ganga: 16 km. Göngutími: 7-8 klst. 

4.d. Gengið yfir æsilega brú og vaxandi gróðurlendi niður í Langadal í Þórsmörk. Áfanganum fagnað með hoppi og híi og ærlegri kvöldvöku. Ganga: 16 km. Hækkun 380 m. Göngutími 7-8 klst.

5.d. Morgunganga eða leti. Rúta til Reykjavíkur um hádegi. 

Fleiri ferðir um Laugaveginn og Fjallabak sumarið 2025