Fimmvörðuháls
- Lýsing
Ein allra vinsælasta gönguleið á Íslandi .
Leiðin um Fimmvörðuháls liggur á milli tveggja jökla, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, og tengir Skóga við Þórsmörk. Þetta er ein allra vinsælasta gönguleið á Íslandi.- Brottför/Mæting
- Kl. 7 með rútu frá Reykjavík.
- Innifalið
- Gisting, rúta og fararstjórn.
Búnaður
Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð
Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.
Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.
Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.
Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.
Göngufatnaður
- Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
- Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
- Peysa úr ull eða flís
- Göngubuxur / stuttbuxur
Í dagpokanum
- Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
- Áttaviti, landakort og GPS tæki
- Smurt nesti fyrir daginn
- Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Vatnsbrúsi
- Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
- Göngustafir
- Myndavél og kíkir
- Sólgleraugu
- Sólarvörn og varasalvi
- Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
- Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
- Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
- Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
- Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir
Í trússtöskunni
- Svefnpoki og lítill koddi
- Bolur til skiptana og til að sofa í
- Auka nærbuxur og sokkar
- Höfuðljós
- Tannbursti og tannkrem
- Sápa / sjampó
- Lítið handklæði
- Eyrnatappar
- Skálaskór
- Peningar
- Núðlur eða pasta í pokum
- Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
- Eitthvað gott á grillið
- Kol og uppkveikilögur
- Haframjöl
- Brauð og flatkökur
- Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
- Hrökkbrauð og kex
- Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Kakó, te og/eða kaffi
- Súpur
- Krydd, t.d. salt og pipar
Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna
- Tjald og tjalddýna
- Prímus og eldsneyti
- Eldspýtur
- Pottur
- Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
- Diskur og drykkjarmál
- Hnífapör
- Vasahnífur / skæri
- Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
Fróðleikur
Skógar-Þórsmörk
Gangan hefst við Skógarfoss með því að gengið er upp tröppurnar austan við fossinn. Mælt er eindregið með því að fólk fari rólega af stað upp tröppurnar, sem eru margar og taka í. Við tekur augljós göngustígur sem liggur upp Skógaheiði, austan Skógaár. Fossarnir sem við blasa eru hverjum öðrum fallegri og gaman er að gefa sér tíma til að skoða þá. Þegar komið er að göngubrú yfir Skógaána eru um 8 km að baki og hér er gott að fylla á vatnsbrúsana því framundan er ekki hægt að ganga að neinu vatni vísu.
Frá göngubrúnni er hægt að velja um tvær leiðir. Sú austari og fjölfarnari liggur að mestu meðfram akveginum upp í Baldvinsskála. Þetta er stysta leiðin en frá göngubrú og í Baldvinsskála eru rúmlega 4 km. Hins vegar er stikuð gönguleið sem liggur vestar (vinstra megin), meðfram Skógaá vestari og upp í Fimmvörðuskála sem liggur hærra en Baldvinsskáli. Frá göngubrú og upp í Fimmvörðuskála er tæp 7 km ganga um vestari leiðina.
Í Baldvinsskála er kamar og aðstaða til að borða nesti en ekkert rennandi vatn. Frá skálanum liggur leiðin að mestu yfir fannir yfir Fimmvörðuhálsinn sjálfan. Leiðin er stikuð og oftast greinileg þegar líða tekur á sumar og margir hafa markað slóð í snjóinn. Eftir um það bil 3 km göngu frá Baldvinsskála er komið að Goðahrauni sem rann í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 úr tveimur gígum, Magna og Móða og er gaman að ganga upp á þá báða eða annan. Upplýsingaskilti er við gosstöðvarnar.
Skammt frá liggur leiðin framhjá vörðu og minnismerki um þrjú ungmenni sem urðu úti á hálsinum árið 1970. Þá er stutt í að leiðin liggi niður í móti og fyrst verður fyrir Brattafönn sem síðsumars stendur illa undir nafni enda hafa loftslagsbreytingar gert það að verkum að fönnin getur þá verið horfin. Fólk þarf að fara hægt niður Bröttufönn hvort sem farið er á snjó eða á móberginu sem undir leynist. Fyrir neðan Bröttufönn er Heljarkambur sem er nokkurs konar hryggur sem tengir Fimmvörðuháls við Morinsheiði. Settar hafa verið keðjur til stuðnings yfir þennan hluta leiðarinnar sem er stuttur og vel fær, líka fyrir lofthrædda, þrátt fyrir illúðlega nafngiftina.
Marflöt Morinsheiðin er næst. Hægt er að sveigja af leið til vinstri og fara þá niður Hvanngil eða jafnvel yfir Útigönguhöfða en hefðbundna leiðin liggur beint áfram og niður bratta brekku undir Heiðarhorni. Stígurinn er mjög greinilegur hér og fallegt útsýni yfir Goðland. Ekki líður á löngu þar til komið er á Kattahryggi sem margir lofthræddir óttast mjög. Búið er að laga stíginn um hryggina svo að þeir eru ekki ýkja ógnvænlegir en þó er ástæða til að fara þar varlega.
Síðasti spölurinn er stuttur en brattur um fallega göngustíga í ilmandi kjarri meðfram Strákagili. Sums staðar hafa verið settar upp stuðningslínur. Þegar niður er komið er best að beygja til vinstri og yfir göngubrú yfir Strákagilslækinn. Þaðan er hægt að fylgja göngustíg í Bása að skála Útivistar eða áfram um göngubrú yfir Krossá og í skála Ferðafélagsins í Langadal. Á milli Bása og Langadals eru um 2 kílómetrar.
Leiðarlýsing
1.d., laugard. Gangan hefst við Skógafoss með því að ganga rólega upp tröppurnar og áfram göngustíginn upp Skógaheiði yfir göngubrúna og í Baldvinsskála þar sem er nestisstund. Gengið að Magna og Móða og ummerki eldgossins 2010 skoðuð. Áfram er haldið um hinn margumtalaða Heljarkamb og Kattarhryggi. Rúta bíður hópsins í Strákagili og flytur hópinn yfir í Langadal. Gist er í Skagfjörðsskála. 23 km, 8-11 klst.
2.d. Morgunganga fyrir þá sem vilja áður en haldið er heim á leið um hádegi.
Náist ekki lágmarks þátttaka verður ferðin felld niður og hún endurgreidd að fullu.