Ferð: Arkað um Okveg

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Suðvesturland

Arkað um Okveg

Tjaldferð
Lýsing

Okvegurinn, sú forna þjóðleið, gengin frá Uxahryggjum að Húsafelli. Vegurinn er hluti aldagamallar þjóðleiðar á milli Norðurlands og Suðvesturlands. Þessi hluti leiðarinnar dregur nafn sitt af jöklinum fyrrverandi Oki, þar sem hún liggur við rætur hans á milli Gilja í Hálsasveit í Borgarfirði og Brunna austan Uxahryggja.

Leiðin frá Uxahryggjum að Giljum var nýlega stikuð. Hún er að mestu undan fæti og léttgengin. Rúta ekur hópnum
á upphafstað göngunnar. Farangri verður trússað með hestum, rétt eins og gerðist til forna. Guðlaugur Óskarsson, sem á heiðurinn af stikum Okvegarins, annast trússið. Gist er í tjöldum. Giljaböðin á lokadegi ekki innifalin í verði

Brottför/Mæting
Kl. 9 með rútu Reykjavík
Fararstjórn

Reynir Traustason og Guðrún Gunnsteinsdóttir.

Innifalið
Rúta og fararstjórn

Búnaður

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

  • Bakpoki, ekki of stór
  • Svefnpoki, léttur og hlýr
  • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
  • Tjald og tjalddýna
  • Göngustafir
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Höfuðljós
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu / skíðagleraugu
  • Broddar, ef þurfa þykir
  • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

  • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
  • Verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði / þvottapoki
  • Sólvarnarkrem og varasalvi
  • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

  • Prímus, eldsneyti og pottur
  • Eldspýtur
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

  • Góðir gönguskór
  • Vaðskór / skálaskór
  • Tvö pör mjúkir göngusokkar
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Nærbuxur til skiptana
  • Nærföt, ull eða flís
  • Flís- eða ullarpeysa
  • Millilag úr ull eða flís
  • Göngubuxur
  • Stuttbuxur
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar

Matur

  • Frostþurrkaður matur
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Haframjöl
  • Smurt brauð og flatkökur
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Leiðarlýsing

1.d.,föstud. Farið með rútu að Brunnum við Uxahryggi þar sem gangan hefst. Gengið verður um Kaldadal að áningarstað við Illukeldu þar sem tjaldað verður á skjólgóðum grasbala skammt frá því ægifagra Fanntófelli. Að kveldi verður sögustund með Guðlaugi Óskarssyni sem gjörþekkir svæðið og sögu þess. Ganga: 12 km. Hækkun: um 100m.

2.d.
Leggjum snemma af stað. Gengið frá Illukeldu norður hálendið. Gengið er í skjóli Oksins, framhjá Smjörtjörn. Tjaldað verður í kyrrð heiðarinnar í grennd við Giljahnúka þar sem farangurinn bíður okkar. Kyrrðarstund og kvöldverður. Kvöldvaka og sögustund í skjóli Oksins. Ljóðið Á Rauðsgili flutt. Vestan við okkur er Fellaflóinn sem Jón Helgason á Rauðsgili orti svo fallega um. Ganga: 12 km . Hækkun: um 50 metrar.

3.d.
Morgunmatur á heiðinni um kl. 8. Pakkað saman og lagt upp kl. 9. Við göngum sem leið liggur niður meðfram Bæjargili að Giljum þaðan sem við göngum um Ásgil og Deildargil, áleiðis að Húsafelli. Þar mun Páll Guðmundsson á Húsafelli taka á móti okkur og sýna listaverkin sín. Endum með því að baða okkur í Giljaböðunum áður en rútan sækir okkur og ekur til Reykjavíkur. Ganga: 12 km. Lækkun: 400 m