Hrútsfjallstindar
- Lýsing
Krefjandi fjallganga í stórbrotnu umhverfi á Hrútsfjallstinda (1875 m). Jaðri Skaftafellsjökuls er fylgt, gengið upp Hafrafell og þaðan upp á jökul um Sveltiskarð. Reynt verður að toppa alla fjóra tindana eða að lágmarki tvo; Hátind, sem er hæstur og innstur séð frá þjóðvegi, og Vesturtind. Krafa um þekkingu á notkun jöklabúnaðar. Gisting á eigin vegum.
- Brottför/Mæting
- Aðfaranótt laugardags frá vegarslóða undir Hafrafelli við Svínafellsjökul.
- Fararstjórn
- Innifalið
- Fararstjórn
Búnaður
Pakkað fyrir dagsferð á jökli
Ísland liggur við heimskautsbaug og alltaf má búast við vondum veðrum, sér í lagi þegar ferðast er á há fjöll eða jökla. Jafnframt krefjast jöklaferðir margvíslegs öryggisbúnaðar og því er dagpoki jöklaferðalangs töluvert þyngri en þegar gengið er á lægri fjöll utan jökla.
Athugið að enginn skyldi ferðast einn á jökli. Á sprungusvæðum jökla þarf að ganga í línu og lágmarkið er þrír í línu. Aðeins þeir sem hafa góða þekkingu á sprungubjörgun ættu að ferðast án fararstjóra á jökli.
Listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.
Göngufatnaður
- Góðir uppháir gönguskór úr leðri eða stífir jöklaskór
- Mjúkir göngusokkar
- Nærföt, ull eða flís
- Peysa úr ull, flís eða mjúkskel
- Göngubuxur
Í dagpokanum
- Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
- Áttaviti, landakort og GPS tæki
- Smurt nesti fyrir daginn
- Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Vatnsbrúsi. Nauðsynlegt er að taka nóg af vatni þegar ferðast er lengi á jökli
- Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
- Göngustafir
- Myndavél og kíkir
- Sólgleraugu / skíðagleraugu
- Sólarvörn og varasalvi
- Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
- Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
- Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
- Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
- Legghlífar
Öryggisbúnaður
- Belti með karabínu
- Jöklabroddar sem búið er að stilla á gönguskóna
- Ísöxi
- Jöklalína (hjá fararstjóra)
- Sprungubjörgunarbúnaður (hjá fararstjóra)
- Snjóflóðaýlir, snjóflóðastöng og skófla ef ferðast er um möguleg snjóflóðasvæði
Ef fjallaskíðaferð
- Fjallaskíði og stafir
- Skíðahjálmur
- Skinn undir skíðin
- Broddar undir skíðin
Fróðleikur
Fjórir glæsilegir tindar
Hrútsfjallstindar eru án efa eitt af glæsilegustu fjöllum landsins og eru í raun fjórir tindar sem nefnast Hátindur sem er innstur, séð frá þjóðvegi 1, Vesturtindur til vinstri við Hátind, Suðurtindur og Miðtindur sem eru báðir hægra megin við Miðtind. Tindaklasinn eru gosmyndanir tengdar Öræfajökli og allt í kring eru há fjöll með mikla falljökla í hlíðum.
Á góðum degi er útsýnið af Hátindi mikilfenglegt en við blasir Hvannadalshnúkur og Tindaborgin sem og Suður-, Mið- og Vesturtindur. Skaftafells- og Svínafellsjöklar skríða niður beggja megin við Hrútsfjallstinda. Þumall, Miðfells- og Skarðatindur sjást líka vel.
Þátttakendur gista á eigin vegum í Skaftafelli eða nágrenni en gistingu er víða að finna á svæðinu. Ef þú vilt ekki gista í tjaldi í Skaftafelli þá er um að gera að vera tímanlega að panta svefnpokagistingu í nágrenninu.
Athugið að frá Reykjavík að Skaftafelli eru um 321 km og tekur um 4 klst. að aka þá vegalengd.
Á göngudagsmorgun hittist hópurinn á bílastæði við Hafrafell sem er Skaftafellsmegin við Svínafellsjökul. Fólksbílafær vegaslóði liggur þangað.
Gangan sjálf hefst við bílastæðið. Ef lagt er af stað um kl. 5 um morguninn má gera ráð fyrir að hópurinn verði komin aftur niður milli klukkan klukkan 20 og 22. Heimferð er svo á sunnudeginum.
Jöklabúnaður er nauðsynlegur og ef þörf er á að leigja búnað þá er það t.d. hægt hjá: Ferðafélagi Íslands, Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, Fjallakofanum, Íslensku Ölpunum og GG sporti.
Annað lesefni
Við rætur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson, árbók Ferðafélags Íslands frá 1993.
Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson, bls 126-127.
Gott að vita:
- Ganga: 23 km.
- Göngutími: 15-17 klst.
- Gisting á eigin vegum.
- Föstudagur og sunnudagur til vara, takið daginn frá
- Jöklabúnaður er nauðsynlegur; ísöxi, jöklabroddar, göngubelti og hjálmur.
Jöklabúnaður:
Hægt er að leigja jöklabúnað hjá Ferðafélagi Íslands fyrir þessa ferð með því að smella HÉR