Ferð: Hvannadalshnúkur & Rótarfellshnjúkur

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Suðurland

Hvannadalshnúkur & Rótarfellshnjúkur

Fjallaskíðaferðir
Lýsing

 Toppatvenna Hvannadalshnúkur & Rótarfellshnjúkur
Það er ógleymanlegt að sigrast á hæsta tindi landsins gangandi, en enn þá tilkomumeira á fjallaskíðum, enda brekkan niður af Hvannadalshnjúki einhver lengsta skíðabrekka landsins.

Gengin er hefðbundin Sandfellsleið, þar af fyrstu 2 -3 klst,  með skíðin á bakinu upp í 700 m hæð.  Þaðan er farið á skinnum upp að Línusteini þar sem farið er í línu áður en haldið er áfram upp svokallaða Dauðabrekku að brún öskjunnar í um 1800 m hæð. Haldið er eftir hefðbundinni leið vestan megin öskjunnar að rótum Hvannadalshnúks (2210 m) og hann toppaður. Af toppi Íslands er einstakt útsýni í allar áttir í góðu skyggni.

Skíða niður sömu leið með viðkomu á hömrum girtum Rotafellshnjúk (1848 m) þar sem er frábært útsýni yfir Ingólfshöfða og Suðurströndina. Af honum er skíðað aftur inn á Sandfellsleið og skíðað niður Dauðabrekkuna, eina lengstu skíðabrekku landsins sem teygir sig á milli skriðjökla að Sandfelli. Gengið að bílum þar sem ferðin endar. Gisting á eigin vegum.  

Í þessari ferð verður gengið á einn af hundrað hæstu tindum landsins. Sjá nánar.

Brottför/Mæting
Snemma að morgni við Sandfell
Fararstjórn

Tómas Guðbjartsson og Salome Hallfreðsdóttir.

Innifalið
Fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir dagsferð á jökli

Ísland liggur við heimskautsbaug og alltaf má búast við vondum veðrum, sér í lagi þegar ferðast er á há fjöll eða jökla. Jafnframt krefjast jöklaferðir margvíslegs öryggisbúnaðar og því er dagpoki jöklaferðalangs töluvert þyngri en þegar gengið er á lægri fjöll utan jökla.

Athugið að enginn skyldi ferðast einn á jökli. Á sprungusvæðum jökla þarf að ganga í línu og lágmarkið er þrír í línu. Aðeins þeir sem hafa góða þekkingu á sprungubjörgun ættu að ferðast án fararstjóra á jökli.

Listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

Göngufatnaður

  • Góðir uppháir gönguskór úr leðri eða stífir jöklaskór
  • Mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís
  • Peysa úr ull, flís eða mjúkskel
  • Göngubuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi. Nauðsynlegt er að taka nóg af vatni þegar ferðast er lengi á jökli
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu / skíðagleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar

Öryggisbúnaður

  • Belti með karabínu
  • Jöklabroddar sem búið er að stilla á gönguskóna
  • Ísöxi
  • Jöklalína (hjá fararstjóra)
  • Sprungubjörgunarbúnaður (hjá fararstjóra)
  • Snjóflóðaýlir, snjóflóðastöng og skófla ef ferðast er um möguleg snjóflóðasvæði

Ef fjallaskíðaferð

  • Fjallaskíði og stafir
  • Skíðahjálmur
  • Skinn undir skíðin
  • Broddar undir skíðin

Fróðleikur

Fjallaskíðaferðir FÍ í umsjón Tómasar Guðbjartssonar og Salome Hallfreðsdóttur hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár. Fjallaskíðamennska er frábær útivist þar sem nánd við náttúruna er mikil, líkamleg áreynsla er töluverð þegar puðað er upp fjöllin og síðan er dásemdin að standa á tindinum og eiga eftir að uppskera allt erfiðið með því að renna sér niður, oft í einstöku færi.

Fjallaskíðamennska krefst þekkingar og færni, meðal annars að lesa í fjallið og aðstæður og velja réttar og bestu leiðirnar, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum. Réttur búnaður og að kunna að nota hann er mjög mikilvægt í þessu fjallasporti og þá ekki síst notkun á hinni heilögu þrenningu, snjóflóðaýli, snjóflóðastöng og skóflu. Annar öryggisbúnaður eins og GPS tæki, hjálmur og skíðabakpoki er einnig mikilvægur í fjallaskíðaferðum, eftir aðstæðum.

Fleiri skíðaferðir 2025