Ferð: Lónsöræfi

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Austurland

Lónsöræfi

Eyjabakkar – Vesturdalur – Tröllakrókar – Illikambur
Lýsing

Mögnuð fimm daga sumarleyfisferð um ein tilkomumestu og afskekktustu öræfi landsins, meðfram jökultungum Vatnajökuls, þar sem andstæðurnar í landslaginu eru hvað stórfenglegastar.

 

Brottför/Mæting
Kl. 9 með rútu frá Egilsstaðaflugvelli.
Fararstjórn

Hjalti Björnsson

Innifalið
Rúta, gisting og fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

  • Bakpoki, ekki of stór
  • Svefnpoki, léttur og hlýr
  • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
  • Tjald og tjalddýna
  • Göngustafir
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Höfuðljós
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu / skíðagleraugu
  • Broddar, ef þurfa þykir
  • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

  • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
  • Verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði / þvottapoki
  • Sólvarnarkrem og varasalvi
  • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

  • Prímus, eldsneyti og pottur
  • Eldspýtur
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

  • Góðir gönguskór
  • Vaðskór / skálaskór
  • Tvö pör mjúkir göngusokkar
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Nærbuxur til skiptana
  • Nærföt, ull eða flís
  • Flís- eða ullarpeysa
  • Millilag úr ull eða flís
  • Göngubuxur
  • Stuttbuxur
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar

Matur

  • Frostþurrkaður matur
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Haframjöl
  • Smurt brauð og flatkökur
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Fróðleikur

Eftirfarandi árbækur fjalla um svæðið og þær er hægt að kaupa í vefverslun okkar.

Börn öræfanna

Ferð með Hjalta Björnssyni fararstjóra um Lónsöræfi er eitthvað sem fólk býr gjarnan að fyrir lífstíð. Hjalti hefur farið um þessar slóðir með hundruð ferðalanga. Stöðug ásókn er í ferðirnar sem seljast ævinlega upp.

Ferðin hefst á Egilsstöðum þaðan sem farið er með langferðabíl á upphafsstað göngunnar við Eyjabakka. Ótrúlegar frásagnir eru til frá þeim sem undanfarin ár hafa farið með þessum þaulreynda fjallamanni um svæði sem alla jafna eru fáfarin. Gangan hefst við hið háa og fagra Snæfell og í grennd við eitt mesta og umdeildasta rask Íslandssögunnar. En fljótlega er göngumaðurinn kominn inn í náttúru sem er ósnortin og yfirþyrmandi fegurðin tekur við næstu dagana.
Veðursæld er gjarnan ríkjandi fyrir austan. Í sól og blíðu er frábært að ganga um þessi svæði sem hinn almenni túristi fer ekki um. En það er ekki síður upplifun að berjast áfram og rigningu og vindi og hafa það hugfast að veður sé gjarnan hugarástand. Aðalatriðið sé að klæða sig rétt. Rétt klæddur er göngumaðurinn ánægður.
Á leiðinni um öræfin undurfögru er áð í skálum sem hitaðir eru upp með viðarkamínum. Ferðamaðurinn gengur með allt á bakinu en þarf ekki að hafa með sér tjald sem léttir byrðarnar. Að kvöldi fræðir Hjalti fólk um dásemdir öræfanna. Þar kemur fólk ekki að tómum kofanum. Sögur um náttúruna og liðna tíð streyma fram. Víst er að ekki eru margir honum fróðari um svæðið. Hjalti er ekki aðeins leiðsögumaður á gönguferðum um fjöll og firnindi. Hann hefur líka annast leiðsögn veiðimanna á hreindýraveiðum og við veiðar í ám og vötnum.
Ferðalagið verður eins magnað og hægt er að hugsa sér. Fólk tekur sér bað í heiðartjörnum og veður jökulár. Gengið er um hrikaleg gljúfur og á háa tinda. Svo mögnuð er fegurðin í Tröllakrókum að göngumaðurinn tekur andköf. Og svo er komið í eyðibyggð þar sem hrunin býli eru sem minnisvarði um brostna drauma Íslendinga sem vildu öðlast sjálfstæði á stað þar sem gróður á erfitt uppdráttar. Á bænum Grund er svipast um. Þrjár fjölskyldur reyndu fyrir sér í tímans rás með búskap þar í 500 metra hæð en snjóflóð og gróðurleysi herjuðu á fólkið sem flúði allt á endanum Þarna voru þjáningabræður Bjarts í Sumarhúsum.
Göngukonan knáa, Anna Bachmann Þórðardóttir, er ein þeirra sem fór í ferð um Lónsöræfi. Hún er afar sátt með upplifunina. ,,Andstæðurnar eru gífurlegar, allt frá flatneskju yfir í miklar brekkur. Mikill gróður og grasi vaxnar hlíðar kom mér mest á óvart. Magnaðasti hluti göngunnar var að fara um Tröllakrókana. Þvílík klettabelti og gljúfur”.
Ferðirnar í Lónsöræfi hafa verið farnar undanfarin ár. Allir sem farið hafa kunna sögur frá ferðalaginu af sól og slarki um ár og vötn. Bað og sund í heiðartjörn er upplifun sem seint gleymist. Þeir sem vilja koma sér upp góðri lífsreynslu og mögnuðum minningum skella pokanum á bakið og fara með Hjalta. Þetta er ferð fyrir börn öræfanna.

Leiðarlýsing

1.d., miðvikud. Gengið um Eyjabakka austan Jökulsár í Fljótsdal með Snæfell á hægri hönd. Eyjabakkafoss skoðaður og stefnt í átt að Eyjabakkajökli, norður fyrir Bergkvíslarkofa og að skála við Geldingafell. Ganga: 15 km. 

2.d. Gengið meðfram Geldingafelli um jökulurðir og ógrónar öldur, fram á brúnir Vesturdals að upptökum Jökulsár í Lóni og hrikalegum fossi. Haldið upp með Vesturdalsánni, yfir að Kollumúlavatni. Gist í Egilsseli í tvær nætur. Ganga: 20 km. 

3.d. Deginum varið í nágrenni Egilssels. Gengið í Víðidal og ummerki búsetu á þessum afskekkta stað skoðuð. Komið við á Kollumúlakollinum á heimleiðinni og jafnvel farið í bað í heiðarvatninu. Ganga: 6-10 km. 

4.d. Heiðarkyrrðin yfirgefin og haldið að Tröllakrókahnaus, um Tröllakróka niður í Leiðartungur. Tvær leiðir mögulegar, um Leiðartungur eða Gilin. Landslagið ber nafn með rentu, m.a. Tröllakrókar og Stórusteinar og litadýrðin er óviðjafnanleg. Gist í Múlaskála. Stórbrotnar kvöldgöngur. Ganga: 10-12 km. 

5.d. Haldið um Illakamb og fram alla Kamba suður í Smiðjunes. Hrikalegt landslag Jökulsárgljúfra og Hnappadalstindur og Jökulgilstindar blasa við. Ganga:19 km. Rúta frá Smiðjunesi til Egilsstaða. 

Fleiri ferðir á Austurland sumarið 2025