Níu tindar Tindfjalla
- Lýsing
Þriggja daga tjaldferð um stórbrotna náttúru Tindfjalla. Gist í tvær nætur í tjaldbúðum í um 800 m hæð og gengið út frá þeim á alla helstu toppa Tindfjalla. Jöklabúnaður er nauðsynlegur.
Í þessari ferð verður gengið á tvo af hundrað hæstu tindum landsins. Sjá nánar.
- Brottför/Mæting
- Kl. 12 á jeppum frá Fljótshlíð
- Fararstjórn
- Innifalið
- Fararstjórn
Búnaður
Pakkað fyrir bakpokaferð
Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.
Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.
Ýmislegt
- Bakpoki, ekki of stór
- Svefnpoki, léttur og hlýr
- Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
- Tjald og tjalddýna
- Göngustafir
- Áttaviti, landakort og GPS tæki
- Höfuðljós
- Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
- Myndavél og kíkir
- Sólgleraugu / skíðagleraugu
- Broddar, ef þurfa þykir
- Peningar
Snyrtivörur / sjúkravörur
- Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
- Verkjalyf
- Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
- Tannbursti og tannkrem
- Sápa / sjampó
- Lítið handklæði / þvottapoki
- Sólvarnarkrem og varasalvi
- Eyrnatappar
Mataráhöld / eldunartæki
- Prímus, eldsneyti og pottur
- Eldspýtur
- Diskur og drykkjarmál
- Hnífapör
- Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
- Vasahnífur / skæri
Fatnaður
- Góðir gönguskór
- Vaðskór / skálaskór
- Tvö pör mjúkir göngusokkar
- Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
- Nærbuxur til skiptana
- Nærföt, ull eða flís
- Flís- eða ullarpeysa
- Millilag úr ull eða flís
- Göngubuxur
- Stuttbuxur
- Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
- Legghlífar
Matur
- Frostþurrkaður matur
- Núðlur eða pasta í pokum
- Haframjöl
- Smurt brauð og flatkökur
- Hrökkbrauð og kex
- Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Kakó, te og/eða kaffi
- Súpur
- Krydd, t.d. salt og pipar
Fróðleikur
Með tjald og brodda á Tindfjöllum
Tindfjöll eru í huga margra spennandi áfangastaður. Þessi tignarlegu fjöll blasa víða af Suðurlandi og eru göngufólki hvatning til þess að sigra tindana. Fjallagarpurinn Hjalti Björnsson mun, líkt og áður, fara með hóp á vegum Ferðafélags Íslands á helstu tinda Tindfjalla. Ferðin er dálítið í þeim anda að hverfa aftur til fortíðar og tjalda.
Gangan hefst með því að gengið er með allt á bakinu en eftir stutta göngu er komið á svæði undir snjólínu í 700 til 800 metra hæð þar sem er vikurundirlag og tilvalið að slá upp tjöldum. Þar verður bækistöð hópsins næstu tvo sólarhringa á meðan tyllt er niður fæti á níu tindum Tindfjalla. Framundan er ganga á Ými og Ýmu, hæstu tindana í fjallgarðinum. Þegar farið er um jökul er fólk í línu og á mannbroddum. Ísöxin er svo tiltæk. Allrar varúðar er gætt enda eins gott þar sem jökulsprungur geta verið lífshættulegar.
Ferðin á Tindfjöll er alls ekki erfið þótt aðbúnaður sé frumstæður. Hjalti fararstjóri er þekktur fyrir að sækja í þannig aðstæður. Að vetrinum á hann það til að fara einn hátt til fjalla með jöklatjald sitt og njóta þess að sofa úti í vetrarfrostinu. Sofið er tvær nætur í tjöldunum. Fólk hefur gjarnan með sér þurrmat og eldar við þessar aðstæður. Mikil áhersla er lögð á það að hafa farangur sem léttastan þegar gengið er með allt á bakinu.
Ferðin á Tindfjöll felur í sér vonir um upplifun sem seint gleymist.
Eftirfarandi árbók fjallar um svæðið og hana er hægt að kaupa í vefverslun okkar.
Leiðarlýsing
1.d., laugad. Ekið frá Fljótsdalum um gróið land, meðfram fallegum giljum og upp á hrjóstruga heiðina þar sem slegið verður upp tjöldum. Genginn hringur á Búra, Hornklofa og Gráfell.
2.d. Langur dagur þar sem gengið er á Ými, Ýmu, Haka og Saxa. Frá Tindfjöllum er stórkostlegt útsýni yfir Suðurland, Þórsmörk og norður til Heklu, sérstaklega af hæstu tindunum, Ými og Ýmu.
3.d. Gengið á Bláfell og Vörðufell og jafnvel Smáfjöll áður en haldið verður til byggða.
Jöklabúnaður:
Hægt er að leigja jöklabúnað hjá Ferðafélagi Íslands fyrir þessa ferð með því að smella HÉR