Norðurstrandir
- Lýsing
Eyðibyggðirnar austan Drangajökuls bjóða upp á magnað landslag og áhugaverða sögu á hverri þúfu. Gengið verður með allt á bakinu frá Reykjarfirði suður í Ingólfsfjörð á Norðurstöndum. Gistum þrjár fyrstu næturnar í húsum og þrjár í tjöldum. Tjöld og vistir fyrir síðari hluta ferðar sett í land við Meyjará.
Gistum fyrstu nóttina á Valgeirstöðum, þar sem farið verður yfir fyrirkomulag ferðarinnar. Siglum um morguninn til Furufjarðar og göngum með léttan bakpoka yfir í Reykjarfjörð, þar sem við gistum í tvær nætur í góðu yfirlæti áður en allt verður sett á bakið og arkað af stað suður eftir ströndinni og upp til fjalla eftir atvikum. Fetað í fótspor galdramanna og nafntoguðustu útilegumanna landsins og hlýtt á sögulegan fróðleik frá heimamönnum. Hér gildir að pakka létt, en vera samt með allan nauðsynlegan búnað, vaðskó, fatnað, mat og drykk til ferðarinnar. Sameiginlegur matur verður tvö kvöld í Reykjarfirði fyrir þá sem vilja, en annars sér hver um sinn mat.
Fremur erfið þriggja skóa ferð, langar dagleiðir, nokkur hækkun og víða grýttar slóðir. Nauðsynlegt að vera í góðu formi til þess að njóta ferðarinnar og gott að miða við að geta farið upp að Steini í Esju á um klukkutíma. Sameiginlegur kvöldmatur ekki innifalið í verði.
- Fararstjórn
- Innifalið
- Gisting á Valgeirstöðum og í Reykjarfirði, sigling, trúss og fararstjórn.
Búnaður
Pakkað fyrir bakpokaferð
Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.
Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.
Ýmislegt
- Bakpoki, ekki of stór
- Svefnpoki, léttur og hlýr
- Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
- Tjald og tjalddýna
- Göngustafir
- Áttaviti, landakort og GPS tæki
- Höfuðljós
- Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
- Myndavél og kíkir
- Sólgleraugu / skíðagleraugu
- Broddar, ef þurfa þykir
- Peningar
Snyrtivörur / sjúkravörur
- Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
- Verkjalyf
- Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
- Tannbursti og tannkrem
- Sápa / sjampó
- Lítið handklæði / þvottapoki
- Sólvarnarkrem og varasalvi
- Eyrnatappar
Mataráhöld / eldunartæki
- Prímus, eldsneyti og pottur
- Eldspýtur
- Diskur og drykkjarmál
- Hnífapör
- Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
- Vasahnífur / skæri
Fatnaður
- Góðir gönguskór
- Vaðskór / skálaskór
- Tvö pör mjúkir göngusokkar
- Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
- Nærbuxur til skiptana
- Nærföt, ull eða flís
- Flís- eða ullarpeysa
- Millilag úr ull eða flís
- Göngubuxur
- Stuttbuxur
- Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
- Legghlífar
Matur
- Frostþurrkaður matur
- Núðlur eða pasta í pokum
- Haframjöl
- Smurt brauð og flatkökur
- Hrökkbrauð og kex
- Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Kakó, te og/eða kaffi
- Súpur
- Krydd, t.d. salt og pipar
Fróðleikur
Eftirfarandi árbók fjallar um svæðið og hana er hægt að kaupa í vefverslun okkar.
Leiðarlýsing
1.d. miðvikud. Þátttakendur mæta á eigin vegum að Valgeirsstöðum og gista þar eina nótt í húsi FÍ. Fundur um fyrirkomulag ferðar um kvöldið. Hluti af bílum selfluttir yfir í Ingólfsfjörð.
2.d. Siglt frá Norðurfirði í Reykjarfjörð þar sem búnaður er settur í land. Siglt áfram í Furufjörð, þaðan sem gengið verður til baka suður í Reykjarfjörð. Léttur bakpoki. Gistum þar í tvær nætur, slakað á í sundlauginni og sameiginlegur matur um kvöldið. Ganga: 10 km. Hækkun 550 m.
3.d. Dvalið í Reykjarfirði og gengið að Hvítsöndum í Þaralátursfirði. Fáum sögustund með heimamönnum í Reykjarfirði og slökum á í góðri sundlaug. Sameiginlegur matur um kvöldið. Léttur bakpoki. Ganga: 9 km. Hækkun um 300 m.
4.d. Gengið með dagpoka um Sigluvík og komið við á Geirólfsnúpi áður en haldið er í Skjaldabjarnarvík og leiði Hallvarðar Hallssonar heimsótt. Leiðin liggur svo um Bjarnarfjörð og að Meyjará þar sem tjöld og vistir bíða hópsins. Ganga: 24 km. Hækkun um 500 m.
5.d. Gengið um hin stórbrotnu Drangaskörð og tjaldað við Drangavíkurá. Ganga: 12-13 km .Hækkun óveruleg.
6.d. Gengið úr Drangavík í Eyvindafjörð og Ófeigsfjörð þar sem verður tjaldað. Ganga: 17 km. Hækkun óveruleg.
7.d. Gengið um Brekkuskarð til Ingólfsfjarðar og staldrað við á Eyri þar sem skoðaðar verða minjar um síldarævintýrið á síðustu öld. Síðan haldið í Norðurfjörð þar sem ferð lýkur eftir að farþegar hafa skolað af sér í Krossneslaug. Ganga: 7 km. Hækkun um 250 m.
Fleiri ferðir á Strandir sumarið 2025
- 3.- 7. júlí. Draumfagra Drangavík
- 9. -13. júlí. Reykjarfjörður – Þaralátursfjörður – Geirólfsgnúpur
- 17.-20. júlí. Ævintýri á Ströndum Ferðafélag barnanna
- 8. -11. ágúst. Undur Árneshrepps
- 15. -17. ágúst. Hjólaferð: Árneshreppur á Ströndum
- 21. -24. ágúst. Á Ströndum með gleði í hjarta