Ferð: Undur Árneshrepps

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Strandir

Undur Árneshrepps

Lýsing

Síldarverksmiðjurnar í Ingólfsfirði og í Djúpuvík. Fossarnir í Ófeigsfirði og sandfjaran í Norðurfirði.
Galdramenn og draugar. Sjósund og stuttar
gönguferðir.
Allt þetta og meira til í þessari ferð.
Árneshreppur á Ströndum er afskekkt og víðfeðmt sveitarfélag við ysta haf. Þar hefur fólk lifað af hlunnindum lands og sjávar um aldir. Árneshreppur er fámennasta sveitarfélagið á Íslandi. Landslagið á svæðinu er ægifagurt og hefur mikið aðdráttarafl. Einnig státar sveitarfélagið af einni vinsælustu sundlaug landsins, Krossneslaug. Það jafnast ekkert á við að láta þreytuna líða úr sér þar eftir góða fjallgöngu og hlusta á sjávarniðinn í fjöruborðinu.
Gist
í skála Ferðafélags Íslands á Valgeirstöðum. Fræðsla og skemmtun að kveldi. Ferðin er átakalítil og lagt upp með að segja sögu svæðisins.
Sameiginlegt grill ekki innifalið í verði.

 


Brottför/Mæting
Kl. 18 á einkabílum á Valgeirsstöðum
Fararstjórn

Reynir Traustason og Guðrún Gunnsteinsdóttir

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Fróðleikur

Leiðarlýsing

1.d., föstud. Mæting kl.18 á Valgeirsstöðum. Stutt ganga í litla þorpið í Norðurfirði um kvöldið.

2.d.
Kistuvogur um Galdrastíg. Kirkjurnar tvær heimsóttar og komið við í byggðasafninu
Kört. Sjóbað í Norðurfirði og svo sund í Krossneslaug.

3.d.
Eyri við Ingólfsfjörð heimsótt. Ekið í Ófeigsfjörð. Stutt ganga upp að Húsárfossi.
Sjóbað og grill að kveldi. Sögur undir svefninn. Draugurinn með bílprófið.

4.d.
Heimferð. Lagt af stað kl. 10 frá Valgeirsstöðum. Komið við í Djúpuvík.
Baskasafnið og verksmiðjan skoðuð. Kveðjustund kl. 12.30 í súpu og köku á Hótel
Djúpuvík.

Fleiri ferðir á Strandir sumarið 2025