Ferð: Víknaslóðir 

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Austurland

Víknaslóðir 

Lýsing

Göngusvæðið frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar er einu nafni kallað Víknaslóðir. Þar eru fallegir firðir og víkur, líparítfjöll og glæsileg fjallasýn. Gist er í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði.

Brottför/Mæting
Kl. 9 með rútu frá Egilsstaðaflugvelli.
Fararstjórn

Hjalti Björnsson  

Innifalið
Rúta, gisting í skálum Ferðafélagsins, trúss og fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Fróðleikur

Eftirfarandi árbók fjallar um svæðið og hana er hægt að kaupa í vefverslun okkar.

 

Slóðir brostinna vona

Ein af ævintýraferðum sumarsins er ganga frá Borgarfirði eystri um víkur og til Seyðisfjarðar. Þetta er trússferð. Göngufólk ber því aðeins vistir og nauðsynlegan fatnað.
Gangan hefst í Stórurð, því magnaða náttúrufyrirbæri í hlíðum Dyrfjalla. Þaðan er farið til Borgarfjarðar eystri sem er paradís göngumannsins, að margra mati. Gist er á Borg þar sem verður sögustund með Hjalta og gangan framundan skipulögð.
Leiðin liggur um Breiðuvík, Húsavík, Loðmundarfjörð og loks til Seyðisfjarðar. Gönguleiðin milli Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar var skilgreind árið 2014 sem eitt besta göngusvæði landsins samkvæmt skýrslu um verkefnið Íslenskir þjóðstígar.
Á leiðinni fræðast göngumenn um sögu byggðar á þessum slóðum. Skoðaðar eru minjar um búsetu á fyrri árum og saga fólksins og náttúrunnar rakin. Hjalti segir frá búsetu kynslóðanna og brostnum draumum sem á endanum leiddu til flótta úr byggðinni. Búið var í flestum víkunum milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar.
Á þessu svæði eru níu víkur sem flestar fóru í eyði um miðja síðustu öld. Lengst var búið í Loðmundarfirði þaðan sem síðasti ábúandinn flutti í burtu árið 1976. Þar hefur húsum verið haldið við. Eftir að Víkurnar lögðust í eyði hefur verið lögð vinna í að hreinsa svæðið. Ásýnd Víkna hefur af þeim ástæðum lagast mikið.

Leiðarlýsing

1.d.,fimmtud. Gengið yfir Brúnavíkurskarð, Súluskarð og Kjólsvíkurvarp til Breiðuvíkur. Ganga: 15 km. Hækkun: um 900m. Göngutími: 6-7 klst.   

2.d.Úr Breiðuvík er farið yfir Stóruá á göngubrú og í dalverpi sem er sannkölluð náttúruparadís, umkringt líparítblönduðum Hvítuhnjúkum, Hvítafjalli og Hvítserki. Endað í Húsavík.  Ganga: 14 km. Hækkun: 650 m. Göngutími: 5-6 klst. 

3.d. Gengið yfir Neshálsinn en þaðan gefst gott útsýni yfir Loðmundarfjörð og yfir á Dalatanga sé skyggni gott. Gist í glæsilegum skála í Loðmundarfirði. Ganga: 14 km. Hækkun: 500 m. Göngutími: 6-7 klst.     

4.d.Gengið út sunnanverðan Loðmundarfjörð og upp á Hjálmárdalsheiði, 600 m. Þegar komið er fram á brúnir Seyðisfjarðar er haldið niður brattar hlíðar niður á veg þar sem rútan bíður. Ganga: 14 km. Hækkun: 670 m. Göngutími: 6 klst.

Fleiri ferðir á Austurland sumarið 2025