Fjölmennur félagsfundur í gærkvöldi

Kæra félagsfólk,

Fjölmennt var á félagsfundi FÍ í gærkvöldi sem haldinn var á Hilton Nordica í gærkvöldi en rúmlega 300 manns sóttu fundinn.

Fundurinn hófst með framsögum þriggja stjórnarmanna og framkvæmdastjóra um stöðu félagsins. Að því loknu var mælendaskrá opin. Þar tóku ýmsir til máls og voru settar fram hugmyndir og vangaveltur um starf félagsins, áreitismál og rekstur. Að loknum málefnalegum erindum fjölmargra félaga voru lagðar voru fram fjórar tillögur á fundinum. Fyrst var borin undir atkvæði sú tillaga sem gekk lengst, þ.e. að stjórnin myndi segja af sér strax og boða til aðalfundar. Sú tillaga var felld með yfirgnæfandi meirihluta. Samkvæmt fundarsköpum voru næst greidd atkvæði um frávísun á vantrauststillögu sem lögð var fram. Frávísunartillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða sem þýddi að vantrauststillagan var ekki borin undir atkvæði. Að síðustu var lögð fram traustsyfirlýsing við stjórn og framkvæmdastjóra félagsins og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Framundan er mikil vinna við að endurheimta trúverðugleika félagsins sem brotið hefur á í umfjöllun undanfarinna vikna. Við munum líta í eigin barm í samstarfi við félagsmenn, rýna til gagns og bæta ferla og vinnulag. Til þess erum við reiðubúin öll sem eitt því við vitum að það er ávallt hægt að gera betur.

Með vinssemd fh. stjórnar Ferðafélags Ísland,

Sigrún Valbergsdóttir
Forseti Ferðafélags Íslands

 

 

Ræða forseta Ferðafélags Íslands, Sigrúnar Valbergsdóttur

„Kæru félagar,

Stjórn Ferðafélags Íslands boðar til þessa félagsfundar í dag til að ræða stöðu félagsins eftir afsögn forseta félagsins. Fráfarandi forseti sat í stjórn félagsins í tvö ár áður en hún var kosin forseti á aðalfundi 2021. Á síðasta aðalfundi var sú sem hér stendur endurkjörin í embætti varaforseta og skv lögum félagsins tók ég því við embætti forseta hinn 27. september sl þegar forseti sagði af sér. Því er það nauðsynlegt að við sem félag rýnum í starfsemina, metum það sem gert hefur verið, finnum út hver staðan er núna og horfum til þess hvernig við getum sem best tekið höndum um að byggja upp Ferðafélagið til framtíðar.

Á aðalfundi í mars s.l. gerði fyrrverandi forseti grein fyrir þeirri góðu siglingu sem félagið er á og mikilli fjölgun félaga. Sömuleiðis að stjórn og starfsmenn hefðu farið í stefnumótunarvinnu á haustdögum ´21 þar sem áætlanir til næstu fimm ára í öllu starfi félagsins voru gerðar. Undirbúningur þess fundar fólst í viðtölum við nokkurn fjölda fólks sem komið hefur að starfi félagsins. Þar var samhljómur um þá þætti sem hafa stuðlað að velgengni FÍ og að hverju bæri að stefna.

Í kjölfar afsagnar forseta 27.sept s.l. skrifaði ég félögum í FÍ bréf þar sem þeim var greint frá vandamálum sem upp höfðu komið í stjórn félagsins á liðnu ári og hvernig tekið var á þeim. Ég hyggst ekki endurtaka það sem stendur í því bréfi en félagsmönnum má vera ljóst að það ríkti alvarleg stjórnarkreppa í félaginu frá því í mars.

Það var einlægur vilji til að greina vandann og finna sameiginlega leið og var það gert með samtölum og fundum. Í maí s.l. varð ljóst að gjá var á milli forseta annars vegar og annarra stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hins vegar. Og það fannst því miður engin leið til að brúa þessa gjá.

Tillögur stjórnar til forseta um að fá utanaðkomandi aðila til að rýna í samskiptavandann og leita lausna fengu ekki áheyrn. Í hönd fór mesti annatími á skrifstofu félagsins, Árbók í dreifingu, innheimta félagsgjalda, skálar að opna og hundruðir ferða að fara af stað eða í undirbúningi og allir kraftar á skrifstofu félagsins þurftu að einbeita sér að þeim verkefnum. Það var ekki með glöðu geði að forseti var beðin að halda sig til hlés á þessum tímapunkti. Það ríkti ekki lengur traust á milli aðila og það þurfti vinnufrið á skrifstofunni.

Afsagnarbréf forseta felur í sér ávirðingar á okkur, stjórnarmenn félagsins og framkvæmdastjóra sem við viljum ekki sitja undir. Þær þarf að færa í rétt samhengi og varpa ljósi á önnur sjónarmið. Enn hróplegri ávirðingar og ósannindi koma fram í viðtali við fyrrverandi forseta í Fréttablaðinu s.l. laugardag. Þar eru allar reglur um meðferð viðkvæmra mála brotnar, fólk nafngreint og einstök mál rakin og trúnaður rofin. Í viðtalinu komu fram ósannindi sem blaðið gerði enga tilraun til að sannreyna heldur birti eins og um staðreyndir væri um að ræða. Það er blaðinu ekki til sóma. Í ljósi þess að að boðað var til þessa félagsfundar og upplýsa frekar okkar félagsfólk á þessum vettvangi taldum töldum við í stjórninni réttast að halda okkur til hlés í opinberri umræðu þar eftir fundinn – því höfum við ekki svarað þessum ósannindum..

Fyrrum forseti tilgreinir að ítrekað hafi verið kvartað undan spurningum hennar um rekstur félagsins og félagsmenn hafa jafnvel túlkað það þannig að hún hafi ekki fengið aðgang að upplýsingum um fjármál og það sett í samhengi við rekstur félagsins og viðhald á skálum. Í fundargerð frá aðalfundi okkar í mars, þar sem rýnt var í rekstur – síðara covid árs og rýnt í markmið félagsins, segir í skýrslu forseta:

  • „vegna óvissu var lögð áhersla á að fresta öllum stórum kostnaðarsömum verkefnum og sýna mikið aðhald í öllum útgjöldum en um leið leita allra leiða til sóknar“

Síðar í skýrslunni segir:

  • „Almennt má segja að rekstur, þjónusta og viðhaldsvinna við skála félagsins hafi gengið vel á síðasta ári“ . Ég spyr því, hvernig má vera að nú sé látið í veðri vaka að ástand skála og framkvæmdir við viðhald og endurbyggingu liggi niðri? Og hvað veldur því að rekstur félagsins er gagnrýndur á þennan hátt? Á aðalfundinum sagði forseti: „Þessi góða þátttaka í ferðum og verkefnum félagsins kemur greinilega fram þegar rekstur félagsins er skoðaður en tekjur jukust um 30% milli ára“.

Verklagsreglur okkar eru þær að á þriggja mánaða fresti er gerð úttekt á fjárhagnum og fjármálastjóri fer yfir þá úttekt með gjaldkera stjórnar og kynnir hana síðan á stjórnarfundi.

Forseti sýndi rekstri félagsins frá upphafi mikinn áhuga eins og henni bar og sýndi þar ábyrgð. Hún spurði margra spurninga og sendi þær í tölvupósti ýmist til framkvæmdastjóra og/eða fjármálastjóra félagsins. Þeim var skilvíslega svarað og í kjölfarið fylgdu nýjar spurningar í tölvupósti. Framkvæmdastjóri kom því með þá tillögu til forseta, til þess að halda forseta upplýstum með skipulegum og reglubundnum hætti, að þau tvö, ásamt fjármálastjóra og gjaldkera stjórnar ættu með sér fund mánaðarlega, þar sem farið væri yfir þær spurningar sem safnast hefðu upp og þá væri hægt að svara og fara strax í viðbótarspurningar sem þessi svör vektu og rýna tölurnar í sameiningu. Þetta samþykkti forseti og þetta verklag tekið upp.

Á fundi sem ég átti með fyrrverandi forseta á þessum tíma kom fram að hún deildi ekki ánægju annarra stjórnarmanna með framkvæmdastjóra félagsins og taldi að hann ætti að hætta. Þarna var þegar komin kreppa í samstarf þeirra tveggja. Frkvstj.hafði tjáð stjórninni að hann upplifði einelti af hálfu fyrrum forseti og það hefði staðið í langan tíma og hann í kjölfarið farið í gegnum erfiðan tíma andlega. Framkvæmdastjóri íhugaði því að segja starfi sínu lausu og tilkynnti forseta það í síma. Þarna hefði verið eðlilegt að forseti setti sig í samband við aðra stjórnarmenn en í staðinn fór í gang atburðarás til að ganga frá starfslokum framkvæmdastjóra. Þetta féll í grýttan jarðveg hjá öðrum stjórnarmönnum sem hér var gengið fram hjá og með þessum atburði hófst stjórnarkreppan sem ríkti í félaginu allt fram að afsögn forseta. Síðar kom í ljós að forseti hafði boðið öðrum stöðuna, manni sem var fararstjóri hjá félaginu, án vitneskju annara í stjórn.

Forseti taldi þetta hins vegar eðlileg viðbrögð af sinni hálfu því frkvstj hefði borið fyrir sig ástæðum sem vitnuðu um kulnun í starfi og því hefði verið réttast að bregðast svona við. Þar að auki væri ýmislegt sem að honum mætti finna! M.a. að hann væri búinn að sinna þessu starfi allt og lengi.

Ég spyr, góðir félagar, er árafjöldi það sem telur þegar maður vill fólk í burtu úr sínu starfi? Er það ekki fremur spurning um það hvernig sinnir viðkomandi starfinu og hvernig hefur félagið þróast og er að þróast fyrir tilstilli þessa starfsmanns? Og er það eðlileg að leiðtogi bjóði starfsfólki fyrirvaralaust að hverfa úr starfi ef hann telur sig sjá merki um kulnun?

Þess ber að geta að framkvæmdastjóri leitaði meðferðar hjá sálfræðingi vegna vanlíðunar sinnar. Niðurstaða þeirrar meðferðar var að hann hafi verið lagður í einelti af fyrrverandi forseta og að hann ætti að leggja fram formlega kvörtun. Það voru því ekki merki um kulnun sem fyrrverandi forseti tók eftir heldur voru það áhrif eineltis af hennar hálfu.

Ég verð líka í þessu samhengi að minnast á starfsfólkið á skrifstofu Ferðafélagsins. Þau eru sannkallaður fjársjóður þessa félags. Fólk sem býr yfir umfangsmikilli þekkingu hvert á sínu sviði, vinnur af hugsjón og spyr ekki hvaða dagur er eða hvað klukkan er og vinnur oft margra manna starf. Jafnvel þetta hæfa fólk hefur þurft að þola athugasemdir um að það væri búið að vera of lengi í störfum fyrir félagið. Ég get ekki orða bundist og spyr: Hversu langt er hægt að ganga og hversu lágt er hægt að leggjast til að stuðla að breytingum, breytinganna vegna. Með hverra eða hvers hag í huga!!!!?

Ferðafélagið hefur verið á ótrúlegri siglingu allt frá því að fyrrum forseti Ólafur Örn Haraldsson gaf kost á sér í það embætti og steig það gæfuspor með sinni stjórn að ráða Pál Guðmundsson til starfa árið 2005. Það er samdóma álit allra sem komið hafa að félaginu og því uppbyggingarstarfi sem hér hefur verið undanfarna tæpa tvo áratugi að heppilegra tvíeyki hafi verið vandfundið.

En þegar Ólafur Örn tók við forsetaembætti hafði engin framkvæmdastjóri verið hjá félaginu í einhvern tíma. Það voru flókin og vandmeðfarin mál sem biðu Ólafs Arnar að leysa, t.d. þau sem höfðu með starfsemi félagsins í Landmannalaugum að gera, svo bara eitt gríðarlega mikilvægt hagsmunamál sé nefnt. Á þessum tíma voru félagsmenn 6.000 en eru nú tæp 11.000. Enginn einn maður hefur átt jafn mikinn þátt í þeirri fjölgun og Páll Guðmundsson. Og þessi þróun er enn í gangi. Aukinn stuðningur við Ferðaélagið frá ýmsum fyrirtækjum og sjóðum má þakka ötulli vinnu hans, sömuleiðis aukinni athygli fjölmiðla á starfi félagsins og síðast en ekki síst fjöldi fjalla-, hreyfi- og lýðheilsuverkefna sem hundruðir félagsmanna auka sín lífsgæði með þátttöku í. Allt er þetta í takt við nýja tíma og bera ferskleika og framtakssemi vitni. Fararstjórum félagsins er tíðrætt um að hafi þeir komið með ferskar hugmyndir hversu vel þeim hefur verið tekið.

Það hefur orðið að lífsstíl að vera þátttakandi í þessum verkefnum FÍ. Og félagið hefur bókstaflega blómstrað. Svoleiðis gerist ekki af sjálfu sér, kæru félagar. Hér koma til þeir eiginleikar framkvæmdastjórans sem við stjórnarfólk teljum til auðlinda Ferðafélags Íslands: Það er samstarfsvilji og samstarfsgeta, lipurð, einurð og útsjónarsemi. Og takmarkalaus hugmyndaauðgi og hæfileiki til að fylgja hugmyndunum eftir.

Í afsagnarbréfi fyrrverandi forseta er farið yfir nokkur mál er tengjast einelti, kynferðislegu áreiti og/eða ofbeldi. Einnig opinberar hún nöfn manna í viðtali sínu hjá Fréttablaðinu, sem tengjast þessum málum. Eitt þeirra mála, frá vorinu 2021, var dregið fram til stuðnings orða um lélega verkferla okkar og úrvinnslu. Þá hefur hún látið að því liggja að í því máli hafi jafnvel verið um að ræða „gróft kynferðislegt ofbeldi“ og að haft hafi verið í hótunum við þolendur til að þagga það niður Það er mikilvægt að það komi hér fram að framsetning fyrrverandi forseta stenst ekki skoðun og er ósönn. Ferli þessa máls er til skjalfest sem og tölvupóstar um að það hafi verið unnið úr því og það til lykta leitt – með sátt aðila.

Þessi framganga fyrrverandi forseta núna skýtur skökku við þegar litið er til svara hennar til Stundarinnar í nóvember í fyrra, í tengslum við mál sem leiddi til afsagnar eins stjórnarmanns,

  • „Við getum ekki tjáð okkur um málefni einstakra starfsmanna/stjórnarmanna en viljum þó segja að öll þau mál sem upp hafa komið hjá Ferðafélaginu sem varða þennan málaflokk hafa verið meðhöndluð í samræmi við viðbragðsáætlun félagsins.“

Ég spyr mig, hvað hefur breyst frá því 14. Nóvember í fyrra? Frá þeim tímapunkti hafa engin mál komið inn til umfjöllunar er varða kynbundið áreiti eða ofbeldi. Þá höfðu öll mál varðandi þann málaflokk verið meðhöndluð í samræmi við viðbragðsáætlun, en 10 mánuðum seinna heldur forseti allt öðru fram. Hvaða fræði liggja að baki þessari framkomu? Er fyrrv.forseti ekki búin að glata sínum trúverðugleika. Ég spyr mig líka , hvað býr að baki því að birta nafn stjórnarmanns núna í opinberu viðtali? En hafa áður sagt að málið hafi verið unnið eftir verkferlum. Það að gagnrýna ferla og úrvinnslu er eitt, en að henda fólki undir vagninn – í opinberri umræðu á þennan hátt – hvaða tilgangi þjónar það?

Hvað sem deilum og árekstrum við fyrrverandi forseta líður vil ég ítreka það hér og nú, fyrir hönd Ferðafélagsins: Við biðjum þolendur hvers kyns eineltis, áreitis eða ofbeldis tengdu starfi Ferðafélagsins einlæglega afsökunar. Einelti eða ofbeldi í hvaða mynd sem er verður ekki liðið. Það er hluti af þeim gildum sem Ferðafélagið hefur samþykkt að starfa eftir.

Og áður en ég lýk þessum pistli mínum vil ég gjarnan koma því á framfæri að allt frá því ég kynntist fráfarandi forseti sá ég hana sem framtíðarleiðtoga okkar ágæta félags. Enginn varð glaðari en ég þegar hún kom inn í okkar raðir og enginn fagnaði meira en ég þegar hún gaf kost á sér í embætti forseta. Það eru því ólýsanleg vonbrigði að sú atburðarás fór af stað sem leiddi til þess að leiðir hennar og annars stjórnarfólks og framkvæmdastjóra skyldu.

Það var ekki vegna skorts á samstarfsvilja hennar og annarra í stjórn við að uppfæra og endurbæta ferla við áreitismálum. Að samningu þeirra komu allir stjórnarmenna á nokkrum fundum í kringum síðustu áramót. Og það var ekki vegna skorts á vilja stjórnarmana til að taka á þeim. Þessi mál koma ekki inn á borð stórnar! Sannleikurinn er sá að Fyrrv.forseta tókst ekki að leiða þessa stjórn og missti traust hennar með sinni framgöngu. Forsetinn þarf að kunna á og viðhafa góða og lýðræðislega stjórnunarhætti.

Við vitum það öll sem höfum komið að félagsstarfi í einhverri mynd sérstaklega starfi sem byggir á ástríðu eins og starf Ferðafélagsins, að þar koma ávallt fram ólíkar skoðanir og mismunandi sjónarhorn. Það getur oft leitt til árekstra og jafnvel deilna. Þegar slíkt kemur upp verðum við að sýna ólíkum skoðunum virðingu því þær byggja í flestum tilfellum á þeirri ástríðu sem fólk hefur fyrir hönd félagsins. Okkur sem sitjum í stjórn hefur nefnilega verið treyst til þess og falið umboð frá félögum til þess að gæta hagsmuna Ferðafélagsins og vinna í þágu þess. Ég get því ekki annað sagt en að ég er miður mín yfir því að okkur, öllum sem var falin þessi ábyrgð á síðasta aðalfundi, tókst ekki leysa þessar deilur.

Þess vegna erum við hér saman komin, félagar í Ferðafélaginu; til þess að fara yfir þá stöðu, hlusta á hvert annað, svara spurningum og reyna að byggja upp Ferðafélagið áfram – SAMAN. Gleymum því ekki að Ferðafélagið er einstakur vettvangur fyrir fólk sem vill njóta þess að ferðast um Ísland, fræðast um Ísland, njóta náttúrunnar – í góðum hópi og góðum anda.“

 

 

 

 

 

Ræða Ólafar Sívertsen, stjórnarkonu í Ferðafélagi Íslands

Kæra félagsfólk,

Ólöf heiti ég og hef setið í stjórn Ferðafélagsins frá árinu 2020.

Í umræðum undanfarinna vikna hefur verið mikið verið rætt um að Ferðafélagið og stjórn þess sé mjög karllæg og í raun hefur umræðan verið þannig að ætla mætti að eingöngu sætu miðaldra karlmenn þar í stjórn. Fyrirsagnir í fjölmiðlum á borð við „fékk karlana upp á móti sér“ ber umræðunni glöggt vitni.

Í lögum félagsins segir að í anda gilda samfélagsins og almennra viðmiða um jafnrétti kynjanna skuli tryggt að hlutfall karla eða kvenna í stjórn sé ekki lægra en 40%. Í stjórnartíð fv. forseta sátu 4 konur og 5 karlar eða samtals 9 manns í stjórn. Bæði forseti og varaforseti félagsins voru konur.

Í þessu samhengi er einnig áhugavert að benda á það að aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins er kona og fjármálastjóri er kona. Formaður ferðanefndar var kona. Ferðamálafulltrúi á skrifstofu er kona. Umsjónarmaður samfélagsmiðla og fréttapósts er kona. Rúmur helmingur allra fararstjóra eru konur og rúmlega helmingur allra skálavarða félagsins eru konur. Auk þess eru konur yfir 60% þátttakenda í ferðum og verkefnum á vegum félagsins.

Við vísum því allri umræðu um karllægni félagsins á bug um leið og við viðurkennum að við hefðum sannarlega getað gert betur í að draga þessar staðreyndir fram og halda þeim á lofti gagnvart ykkur, félagsfólkinu okkar.

Að sama skapi hefur mikið verið gagnrýnt að stjórnin hafi setið lengi og lítil endurnýjun átt sér stað. Vissulega hefur núverandi forseti setið í stjórn í 17 ár en sannleikurinn er hins vegar sá að frá árinu 2016 hefur ný manneskja verið kosin til stjórnarsetu á aðalfundi öll árin nema eitt. Það þýðir að 6 nýjar manneskjur hafa verið kosnar í stjórn á sl. 7 árum, þar erum við að tala um endurnýjun í stjórn upp á 67% á sl. 7 árum. Þetta stjórnarfólk kemur héðan og þaðan en á það sameiginlegt að bera hag Ferðafélagsins fyrir brjósti og búa yfir sérþekkingu og reynslu á ákveðnum sviðum sem styðja vel við starfsemi og uppbyggingu Ferðafélagsins. Þess ber einnig að geta að allt þetta fólk situr í stjórn sem sjálfboðaliðar og fær því ekki greitt fyrir stjórnarsetu sína.

Eins og fram hefur komið hefur núverandi stjórn síendurtekið verið ásökuð um að taka ekki á ýmsum málum er tengjast einelti og áreitni ýmiss konar. Síendurtekið er lykilorð þarna því það er einu sinni svo að ef hlutirnir eru sagðir nógu oft þá fer fólk, sérstaklega fólk sem ekki þekkir til, að trúa þeim. Þetta er þekkt aðferðafræði sem hefur verið beitt í mjög auknum mæli undanfarin ár og sumir vilja kalla „fake news“ eða falsfréttir.

Hið sanna í málinu er að mál er varða einelti og áreitni koma EKKI inn á borð stjórnar eins og kemur skýrt fram í þeirri viðbragðsáætlun sem samþykkt var 15. febrúar sl. Þar segir að (tilv hefst) „í undantekningatilfellum geti stjórn félagsins komið að slíkum athugunum ef málið tengist samráðsteyminu (þ.e. frkvstj., aðstoðarfrkvstj., fjármálastj.) eða stjórnarfólki. Í slíkum tilfellum þá sjá forseti, varaforseti og ritari um athugun málsins.“ (tilv lýkur). Mál rata með öðrum orðum ALDREI inn á borð allrar stjórnarinnar til rannsóknar eða afgreiðslu.

Í viðbragðsáætluninni segir einnig: (tilv hefst)„Við meðferð málsins skal sýna varfærni og nærgætni með virðingu og einkahagi viðkomandi aðila í huga, gæta þess að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð málsins geri slíkt hið sama.“ (tilv lýkur). Þetta er í fullkomnum samhljómi við viðtal við fv. forseta sem birtist í Stundinni þann 15. nóvember 2021 og forseti vísaði í hér áðan. Þar kom jafnframt fram í máli fv. forseta (tilv hefst)„að öll þau mál sem upp hafa komið hjá Ferðafélaginu sem varða þennan málaflokk hafi verið meðhöndluð í samræmi við viðbragðsáætlun félagsins.“ (tilv lýkur).

Það skyldi því engan undra að stjórnin hafni þeim ásökunum alfarið sem hafa farið hátt í umræðunni fyrir tilstilli fv. forseta.

Hins vegar er það svo að þróunin í samfélaginu varðandi þennan málaflokk er hröð, svo hröð að endurskoðun er nú þegar hafin á þeirri viðbragðsáætlun sem samþykkt var í febrúar sl. Við viljum einlæglega gera betur og huga þannig að öryggi og vellíðan alls okkar fólks.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að ítreka að einelti, áreitni og hvers kyns ofbeldi er og verður ekki liðið í starfsemi Ferðafélags Íslands.

Vegna fréttar í fjölmiðlum í dag þess efnis að stjórn hafi bannað forseta að vera í samskiptum við stjórn, framkvæmdastjóra og starfsfólk Ferðafélagsins viljum við árétta eftirfarandi. Á þessum tímapunkti, þ.e. í byrjun júní sl., var framkvæmdastjóri alvarlega að íhuga að leggja fram kvörtun vegna eineltis fv. forseta í sinn garð. Það, að biðja forseta um að halda sig tímabundið til hlés, á meðan fagaðilar yrðu fengnir að málinu var í raun síðasta tilraun okkar til að reyna að sætta aðila. Skv. öllum verklagsreglum í eineltismálum, þar á meðal okkar eigin verklagsreglum sem fv. forseti vann sjálfur að, (tilv hefst) „skal tryggja, á meðan mál er til skoðunar, að þolandi og ætlaður gerandi vinni ekki saman og þurfi ekki að eiga í samskiptum er varða vinnustaðinn og/eða félagsstarf félagsins.“ (tilv lýkur). Framkvæmdastjóri lagði fram formlega kvörtun vegna eineltis af hálfu fv. forseta þann 23. júní en í lok ágúst bárust þau skilaboð frá fv. forseta, í gegnum lögmann hennar, að hún myndi segja af sér á lágstemmdan hátt en til að slíkt myndi gerast væri krafa hennar sú að framkvæmdastjórinn myndi draga kvörtun sína um einelti til baka og láta fella niður rannsókn málsins. Með hag Ferðafélagsins fyrir brjósti ákvað hann að ganga að þessum skilmálum fv. forseta en við öll sem hér erum inni vitum hvernig eftirleikurinn varð.

Kæru félagar, það er mikilvægt að við getum átt hér opin og heiðarleg samskipti á þessum félagsfundi. Það er mikilvægt að við sýnum hvert öðru virðingu og gætum þess í hvívetna að segja satt og rétt frá þegar kemur að mönnum og málefnum. Ég trúi því í hjarta mínu að innst inni viljum við öll gera það sem er Ferðafélagi Íslands fyrir bestu, félaginu okkar.

Takk fyrir áheyrnina