Það er óhætt að segja að síðustu vikur hafi verið verulega krefjandi veðurlega séð. Veðurstofan hefur sent frá sér ótal veðurviðvaranir og snjó hefur kyngt niður sem spillt hefur færð, jafnvel í húsagötum við sjávarmál. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að nóg er af snjó á hálendinu.
Nóg að moka
Heiðrún Ólafsdóttir, skálavörður, er þessa dagana í Landmannalaugum en eins og sjá má á myndum frá henni þá hefur hún þurft að láta til sín taka í mokstri og litlu hlutirnir kosta mun meiri vinnu en vanalega. Heiðrún ætlaði til að mynda að verðlauna sig með kaffibolla eftir að hafa mokað sig inn í skálavarðahúsið en þá tók við heill klukkutími í viðbót í mokstur til að skrúfa frá gasinu.
Veðrið þessa stundina er þó ekki eins fallegt og þegar myndirnar voru teknar, rok og slydda og ekki hundi út sigandi að sögn Heiðrúnar, sem þó er búin að fara út og brjóta niður snjóhengju sem ógnaði aðgengi að húsinu. Næsta verkefni er svo að fara út að kveikja á rafstöðinni.
En þrátt fyrir krefjandi aðstæður er þó líf og fjör í Landmannalaugum. Hópur Landkönnuða kom við um helgina á leið sinni á skíðum um Laugaveginn og hátt í fimmtíu jeppakonur úr 4x4 héldu uppi stemningu á svæðinu. Um helgina er svo von á hópi úr Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Við hin hlökkum hins vegar til sumarsins og að heimsækja þetta einstaka svæði.