Æsustaðafjall og Reykjafell
Lýsing
Æsustaðafjall og Reykjafell eru hvort við annars hlið sunnan við Mosfellsdal. Mosfellingar hafa unnið mikið og lofsvert starf við að stika gönguleiðir í sínu sveitarfélagi og njóta allir íbúar nærliggjandi sveitarfélaga góðs af því náttúrufegurð er mikil í Mosfellsbæ.
Þegar ekið er upp Mosfellsdal má beygja út af inn á veg sem er merktur Hlaðgerðarkot. Fljótlega skal beygja aftur til hægri upp að smáhýsabyggðinni í Skammadal þar sem Reykvíkingar voru vanir að rækta kartöflur fyrr á tíð. Þar finnur ferðalangur fljótlega lítið bilastæði og þaðan liggur merkt og greinilega leið aflíðandi upp á Æsustaðafjall.
Þegar upp er komið blasir hin náttúrulega fegurð Mosfellsdals við með sinn fagra fjallahring og ríka sögu. Tilvalið er að lengja gönguna svolítið og halda áfram yfir á Reykjafell sem er rétt sunnar en Æsustaðafjall og dregur nafn sitt af stórbýlinu Reykjum.
Upplögð fjölskylduganga og verkefni sem rúmast vel á góðviðrisdegi eftir vinnu eða sem hluti af lengri göngu um helgi.
GPS-ferill