Gönguleiðir: Bláhnúkur í Laugum

Hálendið

Bláhnúkur í Laugum

Lýsing

Bláhnúkur er afar fallegt fjall sem kalla má bæjarfjall í Landmannalaugum. Þangað upp liggur skýrt afmarkaður stígur sem beinlínis kallar á göngumann. Rétt austan við skálann í Laugum opnast Grænagil fram og skilur Bláhnúk frá Laugahrauni. Ganga skal frá skálanum og þegar komið er yfir Brennisteinsöldukvísl sem rennur úr Grænagili sést vel hvar stígurinn upp á Bláhnúk byrjar.
Útsýnið magnast eftir því sem ofar dregur og þegar veður er gott fæst algerlega óviðjafnanleg sýn yfir nánasta umhverfi Landmannalauga sem á engan sinn líka í litadýrð og fegurð.
Bláhnúkur er 945 metra hár og svo þessi ganga felur í sér ríflega 300 metra hækkun. Eftir að hafa fetað sig upp á þetta frábæra fjall getur göngumaður sem best haldið ofan aftur sömu leið en einnig er merkt leið niður af fjallinu til vesturs. Sú slóð er dálítið brött en vel fær og kemur niður innst í drögum Grænagils. Þaðan er hægt að halda niður með gilinu aftur í Laugar eða fara inn á Laugaveginn undir rótum Brennisteinsöldu. Allt er þetta vel merkt og stikað og því öllum fært.
GPS-ferill