Gönguleiðir: Helgafell við Hafnarfjörð

Suðvesturland

Helgafell við Hafnarfjörð

Lýsing

Helgafell heitir móbergsfjall eitt skammt frá Hafnarfirði, nánar tiltekið við Kaldárbotna. Helgafellið er afar vinsælt af göngufólki og leiðir á fjallið með þeim fjölförnustu. Hægt er að fara fleiri en eina leið á fjallið og eru þær vel merktar með stikum og vörðum.

Gangan hefst við bílastæði við endann á Kaldárselsvegi ( GPS N. 64.01.573 W. 21.52.456)  fram hjá vatnsbólum Hafnfirðinga í Kaldárbotnum og svo áfram yfir hraunin að fjallinu.
Ágæt hugmynd er því að fara ólíkar leiðir upp og niður og gera þannig hring úr ferðinni. Fyrri leiðin sem komið er að á leiðinni inn að fjallinu er brattari og liggur gegnum þröngt gil í klettunum. Fyrir vikið er hún tilkomumeiri en aðrar leiðir.
Helgafellið er úr móbergi og því víðast hvar fast undir fæti og gott til göngu en móbergið er nógu hart til þess að víðast hvar eru ekki skýrir stígar um fjallið.
Þegar komið er á topp Helgafellsins (GPS N. 64.00.620 W. 21.51.076) er merkt leið til suðurs og þar er hægt að fara niður af fjallinu hjá svokölluðum Riddara. Þegar niður er komið er svo gengið eftir slóð sem liggur á sléttlendinu umhverfis fjallið og henni fylgt aftur út á hefðbundnu leiðina. 
Ef menn hafa áhuga á göngum á sléttlendi er auðvelt að ganga umhverfis fjallið heilan hring og er sú leið reyndar mjög vinsæl bæði meðal hlaupara og fjallahjólara. Sú leið er hluti af því sem stundum er kölluð "Helgafellsáttan" en þá ganga/hlaupa/hjóla menn leið sem liggur umhverfis Valahnúka rétt norðan Helgafells og svo kringum Helgafellið.
GPS-ferill

Forn vatnsveitumannvirki

Rétt við gönguleiðina á Helgafellið er hægt að skoða merkilegar minjar um vatnsveitu Hafnfirðinga. Hafnfirðingar byggðu sér vatnsveitu 1904 í Lækjarbotnum rétt ofan þorpsins. Fljótlega fór að vanta meira vatn og 1916 var ákveðið að veita vatni úr Kaldárbotnum stuttan spöl til vesturs og auka þannig vatnsmagn í Lækjarbotnum. 
Við hornið á girðingunni áður en gengið er yfir brúna yfir ána er hægt að beygja til vinstri og þá er stutt að grjóthlöðnum stokki sem var notaður til þess að flytja vatn úr Kaldárbotnum. Svo má fylgja þessu mannvirki áfram, ganga á stokknum yfir Lambagjá og er þá orðið stutt að bílastæðinu þar sem ganga okkar hófst.