Gönguleiðir: Hestfjall í Borgarfirði

Vesturland

Hestfjall í Borgarfirði

Lýsing

Hestfjall í Borgarfirði er í hinni fögru sveit Andakíl, ekki langt frá vesturenda Skorradalsvatns. Það rís ekki ýkja hátt yfir umhverfi sitt, nær aðeins 221 metra yfir sjó en býður upp á áhugaverða göngu.
Best er að skilja bíl eftir við Fossamela beint suður af fjallinu. Þaðan er hægt að ganga beina leið af fjallinu yfir mela rétt við malarnám en gæta þarf þess að loka hliðum á eftir sér svo búsmali Borgfirðinga fái ekki leikið lausum hala.
Leiðin á fjallið er ekki merkt en nógu mikið farin til þess að þegar ofar dregur sér ferðalangur stíga og ummerki eftir göngumenn. Á leiðinni upp er nauðsynlegt að hafa augun opin því Hestfjall er þekktur fundarstaður fagurra steina. Sérstaklega er það þekkt sem fundarstaður litríkra jaspissteina og því mjög líklegt að göngumaður rekist á sýnishorn á ferð sinni í tiltekinni hæð í fjallinu.
Af toppnum sér yfir grónar sveitir Borgarfjarðar þar sem landbúnaður blómstrar og sennilega viðeigandi að efna til fjöldasöngs: Blessuð sértu sveitin mín, sumar vetur ár og daga.

Svo förum við ofan aftur og ef við erum heppin er Hreppslaugin í Andakíl opin svo við getum skolað af okkur svitann.

GPS-ferill