Kistufell um Gunnlaugsskarð
Lýsing
Kistufell er hluti af Esjunni og rís eins og óárennilegur hamraveggur austan við Þverfellshorn. Þeir sem vilja kanna innviði Esjunnar og langar að koma upp á Kistufellið eiga vísa leið sem er ekki eins erfið og útlit fjallsins gefur til kynna.
Í krikanum milli Kistufells og Esjunnar heitir Gunnlaugsskarð og upp að því liggur stikuð leið. Ákveðnir hlutar leiðarinnar eru í brattara lagi og þessa leið er fyrst og fremst skemmtilegt að fara að sumarlagi. Vilji menn ganga þetta að vetri þarf jöklabrodda og ísöxi ásamt kunnáttu í notkun þeirra.
Best er að hefja gönguna á bílastæðinu við Esjustofu og halda sig við hefðbundna leið í fyrstu. Fljótlega kemur göngumaður að skilti sem vísar á leið út af stígnum til hægri. Þeirri leið sem er skýr og stikuð er hægt að fylgja yfir ána og þaðan gegnum skógarlund og yfir hryggi þar til komið er á bílslóð sem liggur til austurs í stefnu á Kistufell. Þessari slóð má fylgja þar til hún beygir upp á hæð og er þá niðurnídd girðing rétt við veginn. Þarna má beygja og stefna inn í dalinn undir Gunnlaugsskarði og ef allt gengur vel rekst göngumaður á stikur sem settar voru á leiðina fyrir nokkrum árum.
Upp í Gunnlaugsskarð liggur þokkalega skýr stígur upp hrygg á milli gilja og endar göngumaður þá við nokkuð stæðilega vörðu og þá er brattinn að baki. Aflíðandi brekkur taka við upp í fulla hæð og þaðan auðveld ganga út á Kistufellið sem gefur kost á sérstæðu útsýni yfir kunnuglegar slóðir.
Svo er best að fara sömu leið til baka en sumir kjósa þó að taka krók inn á Hábungu Esjunnar og koma niður Þverfellshorn og fara hefðbundna leið niður af fjallinu aftur.