Gönguleiðir: Móskarðahnúkar

Suðvesturland

Móskarðahnúkar

Lýsing

Móskarðahnúkar ( 805 m.y.s) eru tignarleg fjöll austast í fjallabálknum sem við í daglegu tali köllum Esju. Þeir eru úr ljósu líparíti og líta því oftast úr eins og sólin skíni á þá.
Að ganga á Móskarðahnúka er skemmtileg áskorun. Frá sumarbústöðum niðri við Skarðsá liggur stikuð og merkt leið á austasta hnúkinn sem er jafnframt hæstur þeirra. Leiðin upp er víða talsvert brött svo þetta verkefni krefst þess að göngufólk sé í skikkanlegu formi.
Til þess að komast þangað er best að aka austur Mosfellsdal, beygja inn á afleggjara sem er merktur Hrafnhólar. Svo við Hrafnhóla er ekið niður með ánni og beygt til hægri fram að sumarbústöðunum eins langt og hægt er að aka.
Leiðin hefst við bílastæði á vegarenda við Skarðsá ( GPS N.64.13..397 W. 21.33.160) og er gengið yfir brú á ánni og þaðan eftir bílslóð stutta stund en svo taka stikurnar við og leiða mann á brattann. 
Þegar komið er upp í ríflega 700 metra hæð stendur göngumaður rétt við stakstæðan koll sem heitir Bláhnjúkur og er tilvalið að bæta honum við og gera stuttan útúrdúr upp á kollinn.
Svo liggur gatan áfram upp líparítskriður í skarð milli tveggja hnjúka og þar sést norður Eyjadal yfir í Kjós og svo er beygt upp enn meiri bratta upp á hæsta tind Móskarðshnúka (GPS N. 64.14..662 W. 21.30.987).
Rétt er að taka fram að þessi lýsing er miðuð við sumardag. Að vetrarlagi þarf að gæta öryggis síns í bröttu fjalllendi og hátt yfir sjó er annarra veðra von en niðri á sléttlendinu. Vetrarganga á Móskarðahnúka krefst því jöklabúnaðar og fyllstu aðgæslu.
En á fögrum sumardegi er skemmtilegt að stíga á tindinn og virða fyrir sér þá fjallasali sem við blasa. Á bakaleið er kostur á að bæta næstu hnúkum við því skýr slóð liggur eftir eggjunum og svo er hægt að ganga niður á ný.
GPS-ferill

Myndun Móskarðahnúka

Móskarðahnúkar eru myndaðir við líparítgos undir jökli rétt norðan við Stardalsöskjuna svokölluðu. Þá hefur myndast sveigmyndaður fjallaklasi á sprungu frá Móskarðahnúkum, um Hátind og Kistufell og yfir í Grímmannsfell. Nú er ekkert eftir af þessum fjöllum nema Móskarðahnúkar og hluti Grímmannsfells. Líparítið er mjög glerkennt eins og tíðkast um líparít sem snöggkólnar í vatni við gos undir ís.  Mest af glersallanum hefur veðrast utan af gosmóbergseitlunum í Móskarðahnúkum en líparítið er þykkast í austasta hnúknum. (Árbók Ferðafélags Íslands 1985.)