Gönguleiðir: Öskjuvegur

Norðurland

Öskjuvegur

Lýsing

Gönguleiðin þvert yfir Ódáðahraun frá Herðubreiðalindum í austri til Svartárkots í Bárðardal í vestri hefur verið nefnd Öskjuvegurinn. Þetta er alvöru öræfaganga um stærstu samfelldu hraunbreiðu landsins með viðkomu hjá mörgum af helstu hálendisperlum Íslands, svo sem Herðubreiðalindum og Öskju. 

Leiðin liggur hæst í um 1300 metra yfir sjávarmál í Dyngjufjöllum. Þar getur jafnvel yfir hásumarið skollið á stórhríðarveður með mjög lélegu skyggni. Góður útbúnaður ásamt korti, áttavita og GPS tæki er því nauðsynlegur. Að auki er víða gengið um úfin hraun svo gönguskórnir þurfa að vera góðir með grófum og sterkum sóla.

Drykkjarvatn er af skornum skammti á Öskjuveginum nema við sæluhúsin og göngumenn þurfa því að bera með sér vatn til neyslu yfir daginn.

Það er Ferðafélag Akureyrar sem hefur byggt upp þessa gönguleið og reist skála á leiðinni.

Skálar á leiðinni

Fimm skálar eru á gönguleiðinni, allir í eigu Ferðafélags Akureyrar. Þorsteinsskáli í Herðubreiðalindum hýsir 30 manns. Bræðrafell stendur við suðurrætur Kollóttudyngju og þar geta 16 manns gist. Við Drekagil í Öskju á FFA fjögur hús með gistirými fyrir 55 manns. Dyngjufell í Dyngjufjalladal, norðvestan undir Dyngjufjöllum hýsir 16 manns og sami fjöldi getur gist í skálanum Botna, rétt við efstu upptök Suðurár.

Í hvora áttina

Öskjuvegurinn er hefðbundið genginn frá austri til vesturs en ekkert mælir gegn því að ganga hann í hina áttina.

Leiðsagðar ferðir

Hægt er að hafa samband við skrifstofu Ferðafélags Akureyrar í síma 462 2720 ef óskað er eftir aðstoð við skipulagningu og leiðsögn í ferð um Öskjuveginn.  

Herðubreiðalindir-Svartárkot

Herðubreiðalindir-Bræðrafell
19 km. 5-6 klst. Hækkun 240m

Frá Herðubreiðalindum er stikuð leið yfir sandorpið helluhraun vestur að Herðubreið, drottningu íslenskra fjalla. Gengið er milli hrauns og hlíða norður og vestur fyrir fjallið að bílastæði við uppgönguna við vesturrætur Herðubreiðar. Þaðan liggur leiðin vestur yfir Flötudyngju. Í kolli dyngjunnar er mjög athyglisverður gígur. Vestur af Flötudyngju hallar heim að skálanum Bræðrafelli sem stendur austan samnefnds fells. 

Bræðrafell-Dreki
20 km. 6-7 klst. Hækkun 60m

Fylgt er stikaðri leið suður frá Bræðrafellsskálanum, yfir tvö úfin hraunhöft, upp að austurhlíð Dyngjufjalla. Gengið er milli hrauns og hlíða austan undir Stórukistu og Litlukistu og upp á hraunstraumana sem flætt hafa austur úr Öskjuopi. Þar er sveigt austur fyrir hraunið frá Öskjugosinu 1961 og sunnan þess er komið á vegarslóðann (F910) milli Herðubreiðarlinda og Drekagils. Veginum er fylgt heim að Drekaskálunum.

Dreki-Dyngjufell
20 km. 8-10 klst. Hækkun 500m

Í lágskýjuðu veðri er rétt að fylgja vegarslóðanum frá Dreka upp á bílastæðið við Vikraborgir í Öskjuopi. Þar má skilja bakpokana eftir og fylgja greinilegri götu suður að Víti og Öskjuvatni. Í björtu veðri er hins vegar skemmtilegt að ganga frá Dreka beint vestur yfir fjöllin norðan Drekagils og upp á austurbarm Öskju. Af barminum er mjög eftirminnilegt útsýni yfir Öskju og Öskjuvatn.

Frá austurbarmi Öskju er gengið niður í Öskjuna og austan Öskjuvatns að Víti og Knebelsvörðu sem liggur skammt vestan Vítis og er minningarvarða um Þjóðverjana Rudolf og Knebel sem hurfu í Öskju árið 1907. Síðan er götunni fylgt norður að bílastæðinu við Vikraborgir. Frá bílastæðinu er gengið til norðvesturs yfir úfið hraun frá 1961 og síðan vestur milli hrauns og hlíða nyrst í Öskju að Jónsskarði. Hér byrjar stikuð leið (GPS N 65°04,51' - V 16°49,07') norðvestur yfir Jónsskarð. Af skarðinu er mikið útsýni, bæði suður yfir Öskju til Kverkfjalla og Vatnajökuls og einnig norður um Ódáðahraun til Bláfjalls og Sellandafjalls.

Norðvestur af Jónsskarði er stikum og vörðum fylgt niður í Dyngjufjalladal að skálanum Dyngjufelli. Margir eyða aukadegi við að skoða Öskju, því að þar er mjög margt athyglisvert að sjá.

Dyngjufell-Botni
22 km. 6-8 klst. Lækkun

Gönguleiðin fylgir stikaðri jeppaslóð norður úr Dyngjufjalladal. Gengið er um sandorpin hraun og sanda og brátt opnast fögur fjallasýn þar sem mest ber á Bláfjalli, Kollóttudyngju, Herðubreið og Trölladyngju. Um 13 km norðan Dyngjufells er beygt til vinstri út af jeppaslóðinni (GPS N 65°13,69' - 16°58,83'). Eftir það er ógreinilegri slóð fylgt um helluhraun austan undir apalhraunbrún (Frambruni - Suðurárhraun) norður að Botna um 650m suð-suðaustan við efstu upptök Suðurár.

Botni-Svartárkot
16 km. 5-6 klst. Lækkun

Gamalli bílslóð er fylgt frá Botna norð-norðvestur að Efstalæk, þar sem silfurtærar lindir bulla fram undan hrauninu. Hér er skyndilega komið á gróið land, eftir auðnir Ódáðahrauns. Leiðin liggur austan lindanna að Botnatóft og rústum Botnakofa sem er gamall gangnamannakofi. Þaðan er gengið niður með Suðurá að Stóruflesju þar sem gangnamannaskálar Mývetninga standa.

Suð-suðaustur frá Svartárkoti beygir slóðin frá Suðurá og norður að Svartárvatni þar sem fjölmargar lindir vella undan hraunjaðrinum beint út í vatnið. Göngunni lýkur á bæjarhlaðinu í Svartárkoti.