Rjúpnafell í Þórsmörk
Lýsing
Rjúpnafell er tignarlegt og toppfrítt móbergsfjall innarlega í Þórsmörk. Það er rétt um 800 metra yfir sjó og af því gefst feiknalega fallegt útsýni yfir Þórsmörk og hennar dásemdir. Auk þess er gangan þangað ævintýraleg á köflum gegnum gil og brattar hlíðar en alltaf á góðum stígum. Gangan á fjallið sjálft hentar ef til vill ekki þeim sem finna til lofthræðslu því stígurinn er utan í bröttum hlíðum og fer um klettarið og hryggi. En alla leið upp er skýr og góður stígur og því lítil hætta á ferðum.
Stígakerfi Þórsmerkur er víðfeðmt og fer heldur vaxandi. Leiðangur á Rjúpnafell hefst á dyrahellunni á Skagfjörðsskála í Langadal sem margir telja hið eina sanna lögheimili Ferðafélags Íslands. (GPS N. 63. 41. 084 W. 19. 30. 742). Síðan er gengið áleiðis inn Slyppugil og áfram inn Tindfjallagil undir tilkomumiklum tindum framhjá Tröllakirkjunni og stefnt á Rjúpnafellið.
Við enda Tindfjalla greinast slóðir og við höldum áfram uns við stöndum við rætur Rjúpnafells og fylgjum stikuðum stíg upp á topp og bítum á jaxlinn ef lofthræðslan dregur mátt úr hnjáliðum vorum.
Stórkostlegt útsýni er af toppnum (GPS N. 63. 41. 838 W. 19. 24. 513) um suðurhluta Fjallabaks, Þórsmörk, jökla og fjöll. Svo förum við heim í Langadal aftur og syngjum kvæðið um Maríu á kvöldvökunni svo skálinn nötrar eins og hefur verið gert síðustu 70 árin eða svo.
Hægt er að gera hring úr þessu ferðalagi með því að beygja út á Stangarháls við enda Tindfjalla á bakaleið og koma þar ofan á aura Krossár. Það er ekki ráðlegt lofthræddum en er skemmtilegt ferðalag og stórbrotið eins og Þórsmörkin öll.