Gönguleiðir: Skallahringur frá Laugum

Hálendið

Skallahringur frá Laugum

Lýsing

Margir vel merktir göngustígar liggja um Landmannalaugasvæðið. Þeim eru gerð skil á göngukortum sem Ferðafélag Íslands hefur gefið út og eru seld á skrifstofu félagsins og í Landmannalaugum.
Vinsælasti gönguhringurinn um þetta fjölbreytta og fagra svæði er sá sem oftast er kallaður Skallahringurinn. Það er merkt leið sem liggur frá skálanum í Laugum, inn aurana fyrir mynni Brandsgilja og svo upp á Vörðuhnúk. Þaðan enn hærra og liggur stígurinn nærri 1000 metra hæð utan í ávölum kolli sem heitir Skalli. Vinsælt er að taka krók á sig út af stígnum og ganga upp á Skallann. Í björtu veðri er vandfundinn betri útsýnisstaður yfir Jökulgil og Torfajökul handan þess.
Frá Skalla liggur leiðin áfram eftir brúnum Jökulgils og gefast ýmis tækifæri til að fara fram á snasir og virða fyrir sér króka þess og kima. Kollar sem heita Suðurskalli og Gráskalli verða á vegi göngumanna en síðan fjarlægist leiðin gilbarmana og þræðir sléttur og gil uns hún tengist Laugaveginum. Þá er göngumaður staddur uppi á brúnum fyrir ofan Brennisteinsöldu og liggur því beinast við að fylgja þeirri leið aftur heim í Laugar.
Margt ber fyrir augu bæði litríkt líparít og fjölbreyttar ummyndanir af völdum jarðhitans og er líklegt að göngumaður komi ölvaður af fegurð náttúrunnar heim í heita lækinn í Laugum þar sem hann lætur þreytuna líða úr sér.
GPS-ferill