Tindfjallahringur í Þórsmörk
Lýsing
Skagfjörðsskáli í Þórsmörk er að margra mati einskonar lögheimili Ferðafélags Íslands. Þar hefur alltaf blómstrað sú menning og þær venjur sem félagið byggir á frá fornu fari. Hvergi er fegurra en í Þórsmörk þar sem náttúran tekur ferðamann í fangið af einstökum kærleik.
Net af stígum liggur um Þórsmörk og því hægt að una sér dögum saman við að kanna þetta fjölbreytta landslag. Hér er lagt til að göngumaður leggi af stað frá Skagfjörðsskála og gangi hring um Tindfjöllin í Þórsmörk.
Fyrst skal haldið áleiðis inn í Slyppugil og svo þaðan inn gilið áleiðis í Tindfjallagil sem liggur samsíða Tindfjöllum að norðan. Stígurinn er traustur og þéttur en fer vissulega um brattar skriður í Tindfjallagili svo stundum þykir mönnum nóg um. Innarlega í Tindfjallagili er Tröllakirkja, sérstæð klettaborg með dálitlum hellisskúta undir. Þar má skemmta börnum með tröllasögum af lifnaðarháttum trölla og örlögum.
Þegar komið er innfyrir Tindfjöllin eru gatnamót í stígakerfinu. Hægt er að halda áfram inn á Rjúpnafell en við leggjum til að beygja til hægri og halda fyrir endann á Tindfjöllunum og fylgja stikum áfram niður Stangarháls og þaðan út Krossáraura út í Langadal á ný.
Stígurinn niður Stangarháls er á köflum dálítið brattur en mikil vinna hefur verið lögð í að gera hann traustan og öruggan. Stórkostleg gönguleið að flestra mati og einstakt útsýni yfir Goðaland, jöklana og innri hluta Þórsmerkur.
Fyrir þá sem eru brattgengir er hægt að víkja af slóðinni og fara upp á endann á Tindfjöllunum sér til skemmtunar en ekki hentar það þeim sem eiga vanda á lofthræðslu.
GPS-ferill