Gönguleiðir: Úlfarsfell

Suðvesturland

Úlfarsfell

Lýsing

Úlfarsfellið er meðal vinsælustu fjalla í nágrenni Reykjavíkur til gönguferða enda er fjöldi vel merktra leið um fjallið þvert og endilangt. Hægt er að ganga á það frá þremur mismunandi hliðum en sá hringur sem sýndur er hér á kortinu inniheldur tvo tinda fjallsins.
Algengast er líklega að hefja gönguna við skógræktarlund við Vesturlandsveg  (GPS N.64.09.123 W. 21.44.239) og má þaðan velja tvær leiðir upp á vesturenda fjallsins mismunandi brattar. Sú sem er sýnd á kortinu er minna brött en leiðin sem fer beint upp vesturendann.
Þegar komið er upp á fjallið blasir við hæsti tindur þess (GPS N.64.08.814 W. 21.42.613) sem er auðþekktur á því að þar standa fjarskiptamöstur allstór. Göngumaður kemst fljótt að því að stígar liggja víða um fjallið og best að halda sig við þær sem eru vel merktar með stikum.
Þegar komið er á hæsta tindinn má vel halda áfram til austurs eftir skýrri slóð sem liggur yfir á lágan koll ( GPS N. 64.08.661 w. 21.42.477) sem er austan við þann hæsta. Svo þræða menn sig til baka ofan í lægð milli þessara tveggja kolla og halda þar niður, svo dálítið upp á ný og rekja sig svo meðfram fjallinu aftur til baka vestur að skógræktarlundinum.
Einnig er hægt að fara upp og niður sömu leið og velja sér þá uppgöngu frá bílastæði fyrir ofan byggð í Úlfarsárdal, eða frá skógræktinni eða úr Mosfellssveit þar sem búið er að merkja vandaða leið upp með tröppum upp brattasta partinn. Þannig er Úlfarsfell ótrúlega fjölbreytt þótt það láti ef til vill lítið yfir sér við fyrstu sýn.
GPS-ferill