Árbók 1994 Ystu strandir norðan Djúps
Eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur
Árbók FÍ 1994 fjallar um miklar eyðibyggðir í Snæfjalla-, Grunnavíkur- og Sléttuhreppum hinum fornu, auk hluta Árneshrepps. Leitast er við að veita yfirlit í myndum og máli yfir einkenni landslags og birta ágrip af sögu mannlífs. Guðrún Ása Grímsdóttir, sagnfræðingur, varði tómstundum nokkurra ára til að undirbúa þessa bók. Á ritunartíma árbókarinnar voru allar sveitir norðan Djúps í eyði nema Snæfjallaströnd innanverð. Í bókinni er einnig vísað á hvar leita má frekari fróðleiks.
Í bókinni eru alls 226 ljósmyndir og meirihluta þeirra eða yfir 100 tók Björn Þorsteinsson í sérstökum leiðöngrum í samvinnu við höfund. Einnig fór Grétar Eiríksson í ljósmyndaleiðangra.
Kaflar í bókinni
- Snæfjallaströnd: Um Innströnd og Úströnd, að Snæfjöllum, undir Bjarnarnúp og á Heiðinni. Sérkafli um Kaldalón og Drangajökul
- Grunnavík: Um Stað í Grunnavík, byggðina í Víkinni, Staðardal
- Jökulfirðir: Staðarhlíð, Sveitin, um Tindaskörð, um firðina Leirufjörð, Hrafnfjörð, Lónafjörð, Veiðileysufjörð, Hesteyrarfjörð, einnig um Skorarheiði, Kvíar og Hesteyrarþorp
- Slétta: um bæ, nes og Grænuhlíð
- Aðalvík: Byggðarlögin Skáladalur, Vestur-Aðalvík, Staður í Aðalvík, Þverdalur, Miðvíknabás, Látrabás
- Frá Straumnesi á Almenninga vestri: Um byggðirnar í Rekavík bak Látur og í Fljóti, fjalllendið á Straumnesi, á Skorum, á Almenningum vestri
- Í Víkum: Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík
- Á Hornströndum (í kringum Horn): Rekavík bak Höfn, Hornvík og Hornbjarg
- Um Austurstrandir: Fyrst fjallað um Almenninga eystri en síðan um byggðirnar í Látravík, Hrollaugsvík, á Bjarnarnesi, í Smiðjuvík, Barðsvík, Bolungarvík, í Furufirði, í Þaralátursfirði, í Reykjarfirði [nyrðri]
- Á Ströndum sunnan Geirólfsgnúps: Skjaldabjarnarvík, Bjarnarfjörður nyrðri, Drangar og Drangavík með Drangaskörðum, Eyvindarfjörður, Ófeigsfjörður, Seljanes og loks við Ingólfsfjörð vestanvert