Karfan er tóm.
Árbók FÍ 2003 fjallar um austurhluta eldgosasvæðisins mikla upp af Reykjanesskaga, frá Selvogi að sunnan og upp að Skjaldbreið og Þórisjökli að norðan. Í bókinni eru leiðarlýsingar að nýju og fornu, jarðfræði, sögu og mannlíf.
Höfundar eru Þór Vigfússon, fv. skólameistari sem skrifar um Selvog, Ölfus, Grafning og Þingvallasveit og Guðrún Ása Grímsdóttir, sagnfræðingur sem skrifar um Grímsnesafrétt. Myndasmiður er Björn Þorsteinsson en einnig eru í bókinni myndir eftir Odd Sigurðsson, Jón Viðar Sigurðsson, Sigurbjörgu og Guðrúnu Ásu Grímsdætur. Guðmundur Ó. Ingvarsson teiknaði staðfræðikortin eftir prentuðum frumgögnum Landmælinga. Einnig dró Guðmundur upp hraunakort eftir gögnum frá jarðfræðingunum Hauki Jóhannessyni og Kristjáni Sæmundssyni.
Þór Vigfússon skrifar megihluta bókarinnar og í inngangi að riti sínu segir hann: „Ritsmíð þessari er ætlað að fjalla um austurhluta þessa svæðis [eldgosasvæðisins mikla upp af Reykjanesskaga], Árnessýslu vestanverða. Að mestu leyti fellur þetta saman við eystri hlutann af landnámi Ingólfs Arnarsonar, en austurmörk þess voru við Ölfusá, Sog og Þingvallavatn og áfram til norðurs um Öxará og í Hvalfjörð. Einnig verður fjallað um Þingvallasveit að norðan og austan sem landnám Ingólfs náði ekki til, og eina jörð í Grímsnesi, Kaldárhöfða, en hún nær að Þingvallavatni syðst að austan. Þetta er Ölfushreppur ásamt Selvogi, Grafningur og Þingvallasveit, auk nefndrar jarðar í Grímsnesi og þess hluta af Selfossi sem liggur fyrir utan Á.“
Um ritstefnu sína segir Þór: „Segja má að stefnumið við ritsmíð þessa hafi verið að veita nokkurn fróðleik, kannski fólki sem heima situr en hefur áhuga fyrir þessu svæði, kannski ferðamönnum sem kynnu að leggja leið sína um þessar slóðir, einkum þeim sem fara að vélalausu. En hafa ber í huga að svæði þetta er þess eðlis að nánast alls staðar má ganga að augnakasti, að auki við þær fornu leiðir sem nefndar verða.“
Guðrún Ása Grímsdóttir fjallar um Grímsnesafrétt og í upphafi ritgerðar sinnar segir hún: „Í skömmu máli verður greint lítið eitt frá landslagi og afnotum á afrétti að baki byggðafjöllunum sem halda að Grímsnesi og Laugardal í norðvestri, norðri og norðaustri. Sjónum verður einkum beint að Grímsnesafrétti sem teygir sig upp úr norðanverðri Lyngdalsheiði eftir fjallahnúkum, yfir gjár og hraun á Skjaldbreið allt inn að Langjökli.“
„Uppsveitum Árnessýslu skýla fjöll fyrir norðlægum áttum. Að fjallabaki er óbyggt land, mótað af eldi, veðrum og vatni. Á ómunatíð skiptu byggðamenn firnindunum milli sín eftir sveitum og gerðu að afrétti; ráku þangað geldfé og lömb á vorin. Um óbyggðina þvera lá frá upphafi landsbyggðar alfaravegur milli Suður- og Norðurlands, nefndur Eyfirðingavegur eða Norðlingagata. Þar lá ennfremur leið sunnanmanna vestur á land um Kaldadal. Afrétturinn nær yfir fjöll og hraun, sandöldur og klettastrýtur, mosaþembur, grastorfur og kjarr- og lyngfláka með smáblómum …“
Um Ölfus og Grafning voru ekki til heildstæðar lýsingar hjá FÍ en um mörg önnur svæði sem árbók FÍ 2003 nær yfir eða nálæga staði hefur áður verið fjallað að einhverju leyti í bókum Ferðafélagsins eða sem hér segir: