Karfan er tóm.
Ýmsar gönguleiðir eru á Landmannaafrétti, bæði innan og utan Friðlands að Fjallabaki og er Laugavegurinn þekktust þeirra. Í þessu fræðsluriti er reynt að bæta úr skorti á aðgengilegum leiðarlýsingum og kortum á ýmsum öðrum gönguleiðum á þessu svæði.
Hryggjarstykkið í ritinu er lýsing á Hellismannaleiðinni sem er þriggja til fjögurra daga leið úr byggð í Landsveit í Rangárvallasýslu, um eyðibyggðir og áhrifasvæði Heklu, Landmannaafrétt og endar í Landmannalaugum.
Nú er hægt að ganga eftir vel merktri leið, samtals 82 km frá Leirubakka í Landmannalaugar, með Rjúpnavelli, Áfangagil, Landmannahelli og Landmannalaugar sem áningarstaði.
Einnig er lýst nokkrum gönguleiðum út frá helstu áningarstöðum á Hellismannaleiðinni, allt frá Leirubakka í Landmannalaugar, t.d. gönguleið á Heklu, Valahnúka, Löðmund og að Rauðfossi. Þá er lýst hluta af væntanlegum Dalastíg, þ.e. frá Hrauneyjum í Dalakofa með áningu við Landmannahelli. Loks er svokölluðum Friðlandshring og Reykjadalahring lýst, en þetta eru þriggja daga hringleiðir innan friðlandsins þar sem gengið er að mestu um fáfarnar slóðir og stórbrotna náttúru.