Aldur og hæfileikar vega þungt þegar skipuleggja á ferðalag fyrir og með börnum.
Gott er að hafa í huga að hjá börnum er leiðin oftast mikilvægari en takmarkið sjálft. Á meðan fullorðnir keppast við að ná upp á topp eða á leiðarenda þá vilja börn taka sinn tíma til að upplifa litlu ævintýrin á leiðinni. Aftur á móti er gott að ferðin hafi líka einhvern tilgang t.d. að veiða fisk, tína ber, leita að sveppum, köngulóm, kuðungum og hunangsflugum, skoða gjótur eða kveikja varðeld.
Virkið börnin í undirbúningnum því þannig eru þau með frá upphafi og finna að þau gegna hlutverki. Hvert á að fara? Hvað á að gera? Hvað þarf að taka með? Hvað eigum við að borða? Hver á að bera hvað?
Ferðir geta verið alls konar, ekki bara gönguferðir. Hér koma tillögur að nokkrum mismunandi ferðalögum.
Best er að velja leið sem er laus við bílaumferð. Brekkur geta einnig verið erfiðar fyrir börn sem þá gætu þurft að leiða hjólið meira en þeim líkar. Ákveðinn áfangastaður er mikilvægur í hjólaferð því þannig þurfa ekki allir að hjóla saman heldur geta komið í „mark“ á mismunandi tíma eftir mismunandi getu. Alltaf er gott að hafa meðferðis nesti til að borða á áfangastað. Allir eiga svo að sjálfsögðu að vera með hjálm, líka foreldrarnir.
Best er að fara í tunglskinsferð um svæði sem fararstjórinn þekkir vel. Á veturna eru snjórinn og máninn næg lýsing. Reynið að sjá út eins margar myndir úr stjörnunum og þið getið og finnið Pólstjörnuna. Hvar er Karlsvagninn og Orion? Hvaða sögupersónur er hægt að tengja við myndirnar sem þið hafið séð á himninum? Verið einnig kyrr í augnablik til þess að horfa eftir tunglskininu í snjónum. Gott er að enda ferðina á því að fá sér heitt kakó, draga fram súkkulaði eða grilla pylsur eða ostasamloku yfir heitum kolum.
Veiði er hægt að skipuleggja sem sérstaka ferð eða sem afþreyingu í lengra ferðalagi. Það getur verið sniðugt að taka með háf, fötu og stækkunargler ef einhver fær leið á veiðinni. Notið einfaldar veiðiaðferðir og reynið eftir fremsta megni að veiða fisk, jafnvel bara síli eða aðra smáfiska. Munið að allan afla á að hreinsa, elda og borða.
Börnum, óháð aldri, finnst gaman að fara í fjallgöngu. Fjölbreytileiki fjallsins, frá rótum til topps, gefur færi á spennandi og margvíslegri upplifun. Byrjið gönguna við fjallsræturnar. Þar gengur maður oft í gróðri sem teygir anga sína upp eftir fjallinu og getur fylgst með fjölbreyttu dýralífi. Börnin venjast fjalllendinu á leiðinni upp og þjálfast í hreyfingum sem nýtast þegar hærra er komið.
Það er fátt sem börnum finnst eins skemmtilegt og mikið ævintýri og að sofa í tjaldi. Allt er jafn gaman, valið á tjaldstað, uppsetning tjaldsins og ekki síst að skríða svo ofan í svefnpokann, kannski með Andrésblað og höfuðljós.
Það er í góðu lagi að sofa með ungabörn í tjaldi. Þetta eigum við Íslendingar að vita manna best enda vön að pakka börnum út í vagna vetur, sumar, vor og haust. Mestu máli skiptir að einangra tjaldbotninn með einhvers konar tjalddýnum og hafa barnið nálægt sér. Foreldrar geta til dæmis rennt svefnpokunum sínum saman og sofið með barnið á milli sín.
Ef setja á eldri börn ein í svefnpoka, þarf að passa að klæða þau nokkuð vel, því þau hreyfa sig mikið í svefni og eru oftast komin upp úr pokanum þegar líður á nóttina. Annars þarf ekki að hafa of miklar áhyggjur af kuldanum, börn eru að öllu jöfnu miklar hitaveitur og ef þeim verður kalt, þá vakna þau og láta vita af sér.
Þegar börnin eldast geta þau sofið með eldri systkinum sínum eða vinum í sértjaldi sem gjarnan færist æ fjær tjaldi foreldranna eftir því sem aldur barnanna hækkar!
Þemaferðir geta verið dagsferðir sem snúast um ákveðið viðfangsefni eða tilgang. Hér að neðan eru nokkur dæmi, aðeins þarf að fylla inn í með eigin hugmyndum og aðstæðum.