Skráning er hafin á 11. Umhverfisþing sem haldið verður föstudaginn 9. nóvember 2018 á Grand Hótel í Reykjavík. Að þessu sinni verður grunnstef þingsins ný hugsun í náttúruvernd og þau tækifæri sem geta falist í friðlýsingum svæða.
Á þinginu verður áhersla lögð á nýja nálgun í náttúruverndarmálum. Meðal annars verður kynnt ný rannsókn á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða, rædd verða tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar og áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skoðuð frá ólíkum sjónarhornum. Þinginu lýkur svo með pallborðsumræðum um sama efni.
Þrír gestir sem koma erlendis frá ávarpa þingið. Nigel Dudley, ráðgjafi fyrir Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN, útskýrir hvað felst í verndarflokkum samtakanna sem notaðir eru sem viðmið um verndun svæða um allan heim. Lizzie Watts, frá Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna, fjallar um samstarf hins opinbera og einkaaðila á vernduðum svæðum. Loks ræðir Chris Burkard, útivistarljósmyndari og fyrirlesari, um upplifun sína af miðhálendi Íslands í máli og myndum.
Þingið verður frá kl. 13 – 17 og er öllum opið meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að þátttakendur skrái sig eigi síðar en 6. nóvember nk.
Hægt verður að fylgjast með Umhverfisþingi í beinni útsendingu á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Nánari upplýsingar og skráning er vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.