120 manns á kynningarfundi á Bakskóla FÍ

Kynningarfundur Bakskóla Ferðafélag Íslands var haldinn í sal félagsin Mörkinni 6 í kvöld. Yfir 120 manns mættu á fundinn. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sem er umsjónarmaður með Bakskólanum kynnti verkefnið. Bakskólinn hefst með gönguferð 4. apríl og verður boðið upp á þrjár gönguferðir í viku með liðkandi og styrkjandi æfingum.

,, Ég segi nú yfirleitt að það sé ánægjulegt að sjá fólk en átti þó erfitt með segja það í kvöld að það væri ánægjulegt að sjá hvað það væru margir slæmir í bakinu,  en það væri þó ánægjulegt að sjá hversu margir vildu verða betri í bakinu," sagði Páll að loknum fundinum.

Páll á sjálfur 30 ára sögu um bakmeiðsli og bakmeiðslasaga hans náði hámarki sl. haust þegar hann fékk brjósklos.  ,,Ég komst ekki í sokkana mína á morgnana og gat rétt staulast um og var alveg frá í sex vikur og var á leið í uppskurð.  Þá fékk ég leyfi hjá lækni til að fara í léttar gönguferðir.  Því meira sem ég gekk því betri varð ég og ég fór að ganga á fjöll og í náttúrunni í fjölbreyttu landslagi.  Um leið gerði ég styrkjandi og liðkandi æfingar og hef náð miklum bata á skömmum tíma," segir Páll.

Bakskólinn hefst með gönguferð 4. apríl kl. 18 með gönguferð frá Árbæjarlaug.

Gönguferðir Bakskólans verða mánudaga og fimmtudaga kl. 18 frá Árbæjarlaug og á laugardögum kl. 10.30 frá Lágafellslaug í Mosfellsbæ.

Bakskólinn stendur í þrjá mánuði og kostar kr. 10.000 á mánuði.  Þátttakendur geta tekið þátt endurgjaldlaust fyrstu vikuna en allir þurfa að skrá sig fyrir fyrstu göngu.

Gönguferðirnar taka 60 - 75 mínútur með liðkandi og styrkjandi æfingum.  Eftir því sem líður á verkefnið verður tempóið í gönguferðunum aukið en hópnum er skipt niður í tvo til þrjá minni hópa eftir gönguhraða.

Þegar líður á verkefnið verður farið i fjallgöngur, 2 í apríl, 3 í mai og 4 í júní.

Helsti búnaður sem þátttendur þurfa eru góðir íþrótta/hlaupaskór og göngufatnaður / íþróttafatnaður.
Þegar farið er í fjallgöngur eða gönguferðir úti í náttúrunni er gott að vera í gönguskóm.

Göngustafir eru góðir fyrir þá sem vilja.

Páll Guðmundsson er íþróttakennari frá ÍKÍ á Laugarvatni og hefur meðal annars starfað sem íþróttakennari, íþróttaþjálfari og verið umjónarmaður með gönguhópum og fararstjóri hjá FÍ.  Auk Páls verða sjúkraþjálfarar og kírópraktorar hópnum innan handar.

Skráning í Bakskólann er á skrifstofu FÍ Mörkinni 6 í síma 568 - 2533 eða með tölvupósti á fi@fi.is