130 manns mættu í fyrstu gönguna undir merkjum Eitt fjall á viku eða 52 fjöll á árinu með Ferðafélagi Íslands. Fyrsta gangan var farin á Úlfarsfellið í súldarveðri og blautu færi sem á köflum var fljúgandi hált. Ekki kom það mjög að sök því mjög margir voru vel búnir á smábroddum sem teljast ómissandi í fjallgöngum að vetri.
Hópurinn fagnaði á toppnum þótt lítt sæist til fjalla og mikil gleði ríkti í hópnum og góð stemmning sveif yfir vötnunum.
Þátttaka í tveimur fyrstu ferðunum er heimil án skráningar en þegar hafa margir tugir þátttakenda skráð sig og skuldbundið til þátttöku út árið.
Næsta fjall sem hópurinn tekst á við er Mosfell í Mosfellsdal á næsta laugardag. Fylgist með frá byrjun.