Frábær þátttaka hefur verið í morgungöngum Ferðafélagsins í ár. Um 60 manns mættu fyrstu tvo morgnana og gengu á Helgafell á mánudag og Keili á þriðjudag. Í morgun var stefnt á Vífilfell þrátt fyrir að súld lægi yfir toppnum. Samtals 43 vaskir morgunhanar gerðu léttar leikfimiæfingar við rætur fjallsins og töltu svo af stað upp í þokuna. Páll Ásgeir Ásgeirsson fararstjóri í morgungöngunum sagði að veðrið í morgun hefði verið dumbungslegt og í miðju fjalli hefði skyggni verið lítið sem ekkert. ,, Ég bauð þátttakendum upp á að við myndum snúa við, en það tók engin í mál og við fórum öll á hæsta tind Vífilsfells og vorum glöð og endurnærð þegar við komum niður."
Yngsti þátttakandinn var níu ára gamall og skoppaði eins og kiðlingur upp móbergsklappirnar í Vífilsfellinu og aldursforsetinn er 74 ára eftir bestu heimildum og var sjaldan langt undan.
Á morgun verður gengið á Helgafell í Mosfellssveit og á föstudag á Úlfarsfell og verður þá boðið upp á morgunverð þegar upp verður komið.
Lagt er af stað klukkan sex í morgungöngurnar, þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.