52 fjalla hópurinn tekst á við Hnúkinn

52 fjalla hópur Ferðafélags Íslands tókst á við Hvannadalshnúk um helgina. Veður var frábært, heiðskírt, stillt og kalt lengi framan af. Á öskjubrún í 1800 metra hæð tók að snjóa og var látlaus ofankoma í fjórar klukkustundir. Brotafæri í hné var á leiðinni yfir öskjuna að Hnúknum og mælt var tæplega 14 stiga frost. Mjög erfiðar aðstæður voru utan í Hnúknum, brattar ísbrekkur og skæni af nýsnævi huldi sprungur. Í tæplega 2000 metra hæð var því ákveðið að snúa frá.
Þegar hópurinn var kominn áleiðis aftur til baka yfir öskjuna varð bjart á ný en áfram erfitt göngufæri. Hópurinn mætti þessum erfiðu aðstæðum af kjarki og harðfylgi og gleðin sveif yfir vötnunum enda gafst frábært útsýni yfir stórkostlegt landslag Öræfajökuls á leiðinni.
Þátttakendur í förinni voru 92 og með þeim voru 12 fararstjórar. Fararstjórahópurinn steig á stokk í 1100 metra hæð og söng Óbyggðirnar kalla fyrir hópinn undir styrkri stjórn Róberts Marshall sem lék undir á bleikt ukulele. Aðrir fararstjórar sungu, léku á ásláttarhljóðfæri og sýndu danshreyfingar eftir getu.


Fararstjorar syngja