52 fjöll gera myndband í Meitilsgöngu

Þetta líflega myndband var tekið í göngu 52 fjalla hópsins á Stóra-Meitil laugardag 2. mars s.l. Starf 52 fjalla hópsins hefur gengið sérlega vel það sem af er vetrar þar sem harðduglegur hópur sækir verkefnið af miklum krafti.
Daginn sem farið var á Stóra-Meitil var veður allgott, bjart og svalt veður og þokkalegt skyggni yfir nágrennið þar sem göngumenn gátu borið kennsl á ýmis fjöll sem þegar hafa verið lögð að velli og ekki síður fjöll sem bíða göngu á næstu vikum.
Til þess að leggja inn á söfnunarreikning hæðarmetra var ákveðið á bakaleið að ganga einnig á Litla-Meitil. Það reyndist vera skemmtileg gönguleið og varð gönguferð laugardagsins því 10.5 km að lengd og uppsöfnuð hækkun nálægt 500 metrum.
Á leið inn með Meitlum að austan var að sjálfsögðu staldrað við skógarreitinn fallega sem Einar heitinn Ólafsson gróðursetti og hlúði að en Einar var mikill Ferðafélagsmaður og lagði mikið af mörkum til uppbyggingar félagsins.
Í þessari göngu voru rúmlega 80 þátttakendur. Það var Páll Ásgeir Ásgeirsson stjórnandi verkefnisins sem tók myndir og setti saman myndbandið.