70 fengu páskaegg

Páskaeggjaganga - vinningur

70 manns tóku þátt í páskaeggjagöngu Ferðafélags Íslands og Góu á Móskarðshnúka í vonskuveðri i dag. Allhvass vindur var af austri og gekk á með dimmum éljum. Jókst veðurhæðin talsvert eftir því sem ofar dró og varla stætt í hviðum þegar komið var upp á brún. Allstór hluti hópsins gekk þó að heita má alla leið en nokkrir sneru frá við Bláhnúk. En allir fengu páskaegg að launum og konan á myndinni var svo heppin að fá þetta risaegg í sérstöku happdrætti að lokum.
Þátttakan í páskaeggjagöngunni fór fram úr björtustu vonum manna miðað við veðrið að sögn Þórðar Marelsson en hann og Fríður kona hans voru fararstjórar í göngunni. Þeim til fulltingis voru önnur hjón sem fást við fararstjórn fyrir FÍ, þau Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Paskaegg-hopur

Þórður Marelsson situr í miðjum hópi ánægðra páskaeggjagöngugarpa.