Fyrri ferð FÍ á Hvannadalshnúk á hvítasunnudag, tókst með ágætum. 78 manna hópur að meðtöldum fararstjórum náðu tindinum um kl. 13 á sunnudag, eftir tæplega 9 stunda göngu frá Sandfelli. Tveir þátttakendur ákváðu að snúa við þegar 1800 metra markinu var náð og fengu þeir fylgd fararstjóra niður að Sandfelli. Veðrið reyndist þó ekki Hnúkfsförum hliðhollt, éljagangur og þoka settu mark sitt á ferðina. Þrátt fyrir það var ánægjan engu lík þegar tindinum var náð og höfðu sumir á orði að það væri jafnvel skemmtilegra að ná tindinum við krefjandi aðstæður þar sem raunverulega reynir á búnað, klæði og skæði. Hópnum var skipt upp í 10 línuhópa og gengu þeir á mjög jöfnum hraða með þeim ákjósanlegu afleiðingum að flestir náðu tindi á svipuðum tíma. Niðurferðin tók um 4 klst. og í Sandfelli beið grillmáltíð fjallgöngufólksins. Auk þess fengu allir sérstakar Hnúksderhúfur og -boli til sönnunar afrekinu.
Ljósmyndir sem teknar voru í ferðinni verða settar inn á næstunni.
Næsta ferð FÍ á Hvannadalshnúk verður 6. júní og eru 55 manns skráðir. Að auki verður FÍ með ferð á Hrútsfjallstinda og má því segja að Ferðafélagið geri hinum tignarlegu háfjöllum í Öræfajökli góð skil um næstu helgi.